S koðanir flestra fjölmiðlamanna á málum Julians Assanges, Wikileaks og stolnu skjölunum, hafa verið nokkuð fyrirsjáanleg. Framtak Assanges færir fjölmiðlum allskyns fóður, eykur áhorf og lestur. Þeir eru ánægðir með þetta. Þeim þætti skerðing á tjáningarfrelsi ef Assange yrði stöðvaður í birtingum sínum.
Hvað myndu menn segja ef starfsmaður Washington Post stæli innanhúslista um leynilega heimildarmenn blaðsins, menn sem hefði verið heitið trúnað, og sendi listann til Vefþjóðviljans. Mætti hann birta listann daginn eftir? Myndi það skerða tjáningarfrelsi Vefþjóðviljans ef ritið yrði hindrað í því að birta hinn stolna lista?
Nú flýtir kannski einhver sér að segja, að annað sé að stela lista frá ríki en einkaaðila. En slík mótbára myndi vekja mikilvægar spurningar. Í fyrsta lagi: Í hvaða grundvallarreglum er gerður munur á rétti til „tjáningar“, eftir því hvort menn dreifa leyndarmálum sem stolin eru frá ríki eða stolin frá einkaaðila? Er þetta bara eitthvað sem mönnum finnst? Getur slík tilfinning heimilað að taka við stolnum hlutum og nýta þá sér til framdráttar?
Og ef það er í lagi að stela leyndarmálum ríkis, hvað myndu menn gera ef starfsmaður Tryggingastofnunar stæli lista um bótaþega og sendi einhverjum náunga sem myndi birta listann? Og ef það er ekki sambærilegt af því að þar séu upplýsingar sem ekki eigi „erindi við almenning“, þá má spyrja hvort „tjáningarfrelsið“ ráðist af slíkum mælikvarða. Sé svo, hvað þá um birtingu Wikileaks á hundruðum þúsunda skjala, sem af fréttum að dæma virðast nú ekki öll hafa mikla þýðingu?
Eitt væri nú ef fundist hefðu skjöl sem sönnuðu að Bandaríkin undirbyggju kjarnorkuárás á Finnland eða héldu hundruðum brotlentra Marsbúa í leynilegum klefum í kjallara Hvíta hússins. En skjalahrúgan sem Wikileaks birtir er ekki valin eftir einhverju slíku. Það virðist enginn munur gerður á því, sem einhver gæti reynt að halda fram að ætti brýnt „erindi við almenning“, og svo hverskyns ómerkilegum hlutum.
Og þegar þannig er komið, hvort snýst málið þá meira um „tjáningarfrelsi“ eða löngun blaðamanna til að fá eitthvað til að skrifa um, jafnvel þótt það sé stolið?