Fimmtudagur 16. desember 2010

350. tbl. 14. árg.
Kristján Sigurjónsson: En leggurðu þinn pólitíska feril að veði að þetta mál nái í gegn?

Steingrímur J. Sigfússon: Við skulum bara sjá, ég meina, ég ætla ekki út í getgátur um óorðna hluti. Allt svo, mér var falið þetta verkefni. Mér var falið af þeirri ríkisstjórn sem ég sit í að taka ábyrgð á þessu erfiða verkefni að reyna að leiða það til lykta með samningum. Ég hef gert það eins og vel og ég hef getað og að sjálfsögðu ber ég þá ábyrgð á því sem ég hef tekið að mér. Þannig að það augljóslega hefur afleiðingar ef að þingið hafnar því sem ráðherra leggur til í svona máli.

Anna Kristín Jónsdóttir: Og hverjar eru hinar augljósu afleiðingar þess í þínum huga?

Steingrímur J. Sigfússon: Það eiga allir sem eru læsir á stjórnmál að skilja það.

– Fjármálaráðherra svarar spurningum fréttamanna Ríkisútvarpsins 26. júní 2009 um stöðu sína nái fyrri Icesave-ánauðin ekki fram að ganga.

Þ ingið hafnaði þessari útgáfu af Icesave-ánauð Steingríms og Jóhönnu. Það hafði þær augljósu afleiðingar að Steingrímur sat sem fastast. Síðan var gerður nýr samningur litlu betri og honum var hafnað 98-2 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafði þær augljósu afleiðingar að Steingrímur var áfram fjármálaráðherra eins og allir sem eru læsir á stjórnmál eiga að skilja.

Á meðan öllu þessu stóð dundu á landsmönnum Íslandsslitaspár Steingríms. Ef ekki yrði farið að hans ráðum og gengist undir Icesave-ánauði myndi alþjóðasamfélagið skella á nefið á Íslendingum og henda lyklinum.

Ekkert af því rættist og svo augljóst sem það er öllum sem læsir eru á stjórnmál er Steingrímur enn fjármálaráðherra.

F réttablaðið flytur „fréttir“ af því á hverjum degi að nýjasta útgáfa Icesve-ánauðarinnar sé mikil gæfa fyrir Íslendinga. Veifar blaðið því til sönnunar að svo og svo mikið fáist fyrir dýrðina í eignasafni Landsbankans.

Í stuttu máli snýst nýjasti „samningurinn“ um Icesave um tvennt.

  1. 100% skuldsetta stöðutöku í hlutabréfum í eignasafni Landsbankans.
  2. Skuldirnar eru allar í erlendri mynt án þess að tekjur í sömu mynt séu til staðar.

Þetta er það tvennt sem komið hefur flestum einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi í klandur undanfarin ár.