Miðvikudagur 15. desember 2010

349. tbl. 14. árg.
Þegar upp er staðið, frú forseti, snýst Icesave-málið um mannasiði. (Gripið fram í: „Börnin okkar.“) – Sem við skulum kenna mannasiði.
– Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ræðir aðalatriði Icesave-málsins, með hjálp annarra þingmanna, 20. ágúst 2009.

Ý mislegt er reynt til að koma Icesave-ánauðinni yfir á skattgreiðendur. Rétt eins og var gert fyrir ári. Sumir, einkum Ríkisútvarpið, létu þá eins og íslenskum skattgreiðendum væri hreinlega skylt að gangast undir ánauðina, og má enn heyra leifar þessarar kenningar í orðfæri Ríkisútvarps-manna, sem gæta þess jafnan að tala um Icesave-skuld ríkisins, fremur en Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Í Efstaleiti snýst málið enn um skuld sem ber að greiða, en ekki um kröfur sem deilt er um.

En fleiri og fleiri hafa rekið sig á, að íslenskir skattgreiðendur hafa enga lagalega skyldu til að taka á sig þessar greiðslur. En sumir telja það litlu skipta, úr því að Evrópusambandið vill að Íslendingar borgi. Hafa slíkir menn komið sér upp ýmsum röksemdum fyrir því að leggja ótrúlegar fjárhagsbyrðar á komandi kynslóðir – og hafa ýmsar röksemdanna einnig þann kost að minna á siðferðilega yfirburði þessara ágætu manna, umfram þessa vondu menn sem þráast við. Þannig talaði Sigmundur Ernir Rúnarsson fyrir ári um það á Alþingi að það ætti að leggja þessa greiðsluskyldu á komandi kynslóðir, beinlínis til þess að „kenna þeim mannasiði“, og hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir þær ef þær geta um nokkurra áratugaskeið búið við skert lífskjör vegna slíkrar kennslu þingmannsins.

Eitt af því sem nú er borið á borð er að þótt upphaflega hafi ekki verið lagaskylda til greiðslu, þá sé vandamálið að ella sé óskapleg mismunun á ferð gagnvart erlendum innstæðueigendum. Ríkisstjórnin, bæði sú sem sat við bankaþrot og sú sem nú situr, hafi lýst því yfir að allar innstæður í innlendum bönkum séu tryggðar, og eitt verði yfir alla innstæðueigendur að ganga. Það er eins og þeir, sem svo tala, átti sig ekki á því að með þessari kenningu eru þeir að leggja til mun meiri greiðsluskyldu á íslenska skattgreiðendur en sem nemur kröfum Breta og Hollendinga. Ríkisstjórnirnar hafa lýst yfir að allar innstæður á Íslandi séu tryggðar, óháð öllum lágmarksupphæðum Evrópusambandsins. Séu menn nú á þeirri skoðun, að ríki hafi sömu skyldu við innstæður erlendis og við innstæður innan ríkisins, sem ekkert land mun raunar álíta, þá hljóta þeir að telja rétt að ríkið ábyrgist allar innstæður á Icesave-reikningum, óháð lágmarki Evrópusambandsins. Ætli þeir séu tilbúnir til þess, í mannasiðakennslu sinni?

Lesendur geta farið nærri um skoðanir Vefþjóðviljans á ríkisábyrgðum. En hvað sem þeim líður, þá er það svo að flest ef ekki öll lönd telja sig hafa meiri skyldur innanlands en utan. Íslandsvinurinn Alistair Darling tók þannig ekki í mál á sínum tíma, að ábyrgð á innstæðutryggingum útibúa fallinna breskra banka á Mön félli á breska skattgreiðendur. Enda líta flest ríki svo á, að þau hafi meiri skyldur við eigið fjármálakerfi en fjármálakerfi annarra landa. Á því eru þó undantekningar, en eyja nokkur í Atlantshafi er svo heppin að þar stjórna víðsýnir ráðamenn sem einkum tala fyrir kröfum annarra ríkja en sjaldan fyrir málstað eigin lands. Þeir styðjast við stjórnarþingmenn sem vilja ólmir kenna þegnunum mannasiði með því að láta þá borga það sem þeim er alls ekki skylt að borga.

V egna tæknimála hefur ekki verið mögulegt að kaupa helstu nauðþurftir til jólanna í bóksölu Andríkis. Úr því leysist vonandi í dag. Af sömu ástæðu birtist ekki pistill gærdagsins með mikilvægum skilaboðum frá José Maria Aznar fyrr en seint og um síðir.