Miðvikudagur 8. desember 2010

342. tbl. 14. árg.

A lls kyns reglugerðir og opinbert eftirlit með framleiðslufyrirtækjum eru oftast réttlætt með vísun í „neytendavernd“. Það er þó öllum ljóst að þetta getur verið fyrirtækjum dýrt. Þau þurfa að grípa til alls kyns ráðstafana og kaupa dýra sérfræðiþjónustu til að mæta reglunum. Fyrr en síðar kemur þessi kostnaður fram í vöruverði til neytenda. En það er fleira en aukin dýrtíð sem þessi „neytendavernd“ hefur í för með sér. Hún getur verið mikil hindrun fyrir ný og lítil fyrirtæki sem eiga eftir að hasla sér völl. Þau ráða einfaldlega ekki við þann fasta kostnað sem því fylgir að fara eftir öllum reglunum, skila öllum skýrslunum og mæta eftirlitinu.

Þess vegna þarf það ekki að koma á óvart að stórfyrirtæki og samtök þeirra séu stundum hlynnt vernd af þessu tagi sem hið opinbera dulbýr fyrir þau sem neytendavernd. Neytendavernd getur þannig verið besta vörn stórfyrirtækja gegn nýjum keppinautum. Í miklu regluverki eiga nýjungar einnig erfitt uppdráttar. Þær falla ekki að stöðlum og reglum sem fyrir eru.

Enginn þáttur efnahagslífsins hefur nokkru sinni verið jafn bundinn regluverki og eftirliti og fjármálakerfi Vesturlanda undanfarna áratugi. Það er til að mynda ekki hlaupið að því að stofna nýjan banka. Það tekur mánuði og ár að uppfylla öll skilyrði. Án efa er því haldið fram að þetta sé gert til að vernda sparifjáreigendur fyrir alls kyns ævintýramönnum sem kynnu ella að opna banka í næsta eplakassa. Það er nú það. Ætli sé eitthvað sérstakt sem ævintýramenn án alls eftirlits gætu gert af sér sem bankamenn hafa ekki gert undanfarna áratugi? Þeir hafa verið hlaðnir prófgráðum, umkringdir sérfræðingum, með óteljandi starfsleyfi, undir eftirliti fjármálaeftirlits, kauphallar, stjórna, endurskoðunarnefnda, innri endurskoðunar, regluvarða og hluthafafunda, sendandi frá sér uppgjör árituð af endurskoðendum á nokkurra mánaða fresti. Ein ástæðan að þeir hafa komist upp með þetta er ef til vill hve erfitt er að komast inn á þennan markað vegna reglugerðaflóðsins.