F réttir herma að Suður-Kóreumenn séu nú orðnir herskáir og hóti loftárásum á Norður-Kóreu ef ráðamenn þar verði ekki til friðs. Það eru uggvænlegar fréttir fyrir Íslendinga, því sumir spekingar sögðu fyrir rúmu ári að Ísland yrði að evrópskri Norður-Kóreu ef Íslendingar gengju ekki undir Icesave-ánauðina innan örfárra daga. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra taldi að landið breyttist í Kúbu.
Sumir af þeim sem boðuðu skelfingar og ömurleika ef ekki yrði látið undan kröfum Bretlands og Hollands vafningalaust, eru nú enn á ferð að reka áróður þessara ríkja. Og hugsanlega munu einhverjir trúa þeim jafn vel nú og í fyrra. Að minnsta kosti er ekki hætta á öðru þegar áróðursþáttur Ríkisútvarpsins, Vinstrispegillinn, er annars vegar. Þar mun halda áfram þáttaröðin Spjallað við speking, þar sem Þórólfur Matthíasson, Indriði Þorláksson, Vilhjálmur Egilsson og Steingrímur J. Sigfússon munu syngja sama söng og fyrr: Við verðum að taka á okkur ofboðslegar skuldbindingar, sem okkur koma ekki við, því annars fáum við ekki að skuldsetja okkur enn meira ofan á þær.
Og fréttamenn munu ekki aðeins nota augljósar aðferðir eins og að velja í sífellu slíka viðmælendur. Þeir munu einnig nota aðrar og lymskufyllri aðferðir. Ein þeirra, og sú sem fréttamenn Ríkisútvarpsins beita jafnt og þétt, er sakleysislegt orðalag sem þó gefur falsmynd af raunveruleikanum. Þeir tala jafnan um „Icesave-skuldina“ og um að Íslendingar vilji ekki greiða „skuldina“. Fréttamenn sem vilja halda hlutleysi myndu ekki tala um „skuldina“, þegar annar aðilinn kannast ekki við að skulda nokkurn hlut. Fréttamenn sem vildu halda hlutleysi myndu tala um „kröfu“ en ekki „skuld“, því að um það snýst málið: Bresk og hollensk stjórnvöld gera kröfur en Íslendingar hafa ekki viðurkennt neina skuld við þessi yfirvöld.
En hver í Efstaleiti þarf að hugsa um hlutleysi?