A llt stefnir nú í að ein mesta skattahækkun hér á landi á næsta ári verði á Seltjarnarnesi. Meirihluti Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra ætlar að hækka útsvar á bæjarbúa úr12,1% í 12,98%. Þetta er hrikalegur afleikur, ekki aðeins fyrir skattgreiðendur á nesinu. Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnaresi mun einnig glata sérstöðu sinni og þetta mun veikja ímynd Sjálfstæðisflokksins á landinu öllu. Um árabil hefur verið hægt að benda á hið góða fordæmi sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í skattamálum. Það hefur verið til marks um að einhver munur sé á Sjálfstæðisflokknum og öðrum flokkum.
Baldur félag ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi mótmælir þessari skattahækkun með ályktun.
Fyrirhugaðar aðgerðir bæjarstjórnar ógna sérstöðu Seltjarnarnesbæjar sem fyrirmyndar bæjarfélags og eru ekki í takt við þau kosningarloforð sem gefin voru fyrr á þessu ári. Kjósendur flokksins hljóta að krefjast svara frá bæjaryfirvöldum um hvað hafi farið úrskeiðis í fjármálum bæjarins og hvers vegna þessi leið sé farin.
Baldur telur að þeir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn sem séu fylgjandi fyrirhuguðum skattahækkunum séu að bregðast grundvallarhugsjónum Sjálfstæðisflokksins um hóflega skattlagningu og frelsi einstaklingsins. Bæjarbúar hafa margir orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu undanfarið og ættu bæjaryfirvöld að leitast við að draga úr útgjöldum til að létta fjárhagslega byrði þeirra, en ekki leita í hugmyndasmiðju sósíalista sem aðeins vilja hækka skatta, slá fleiri lán og auka útgjöld. Útgjöld bæjarins hafa hækkað að meðaltali um 14 prósent á ári seinustu níu árin í tíð Sjálfstæðisflokksins og er kominn tími til að hverfa af þeirri braut. Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi læri af mistökum fyrri ára og skeri niður útgjöld í stað þess að skattpína bæjarbúa eins og vinstrimanna er siður. |
Þegar útgjöld bæjarfélags hafa hækkað um 14% á ári að meðaltali í 9 ár á sama tíma og íbúum hefur fækkað um 5% blasir við að draga má saman án þess að allt fari um koll.