E ins og þeir vita sem njóta uppfræðslu evrópskra fjölmiðla þá vill jafnan svo til, að helstu leiðtogar bandarískra repúblikana eru ekki aðeins stríðsóðir heldur líka flestir hreinir hálfvitar, ólíkt demókrötum. Meginþorri evrópskra fjölmiðlamanna heldur einlæglega með demókrötum og telur að forystumenn þeirra séu yfirleitt velviljaðir framfaramenn. Hin fáu feilspor demókrata séu yfirleitt vegna of mikilla áhrifa gyðinga í Bandaríkjunum eða þá vegna þess að þeir gátu ekki lengur setið þegjandi undir rógsherferð repúblikana. Í efstuleitum Evrópu er heimurinn einfaldur.
Síðustu áratugi hafa evrópskir fjölmiðlar sagt margar sögur til að sanna heimsku repúblikana. Reagan var iðulega lýst sem elliæru flóni, sem líka væri líklegt til að leggja heiminn í rúst með stríðsæsingum sínum. Þegar hann lét af völdum, skömmu áður en Sovétríkin liðuðust í sundur, tók nú ekki betra við, því þá fengu evrópskir fjölmiðlar varaforsetann Dan Quayle og við tóku samfelldar sögur af vanþekkingu hans og heimsku. Hver hefur sjaldnar en tuttugu sinnum heyrt af því hvernig honum mistókst að stafsetja orðið kartafla?
Þegar George Bush yngri varð forseti hófust aftur sambærilegar fréttir af leiðtoga Bandaríkjanna. Að vísu var ekki lagt í að segja hann elliæran en evrópskir fjölmiðlamenn sáu í Bush sameinast heimsku Quayle og brjálæði Reagans. Vandfundinn er evrópskur álitsgjafi sem ekki var sannfærður um að George Bush væri alger hálfviti og illmenni.
En demókratar eru sem betur fer ekki svona. Þeir eru greindir og yfirvegaðir. Obama færir heiminum von. Gore flýgur um heiminn á einkaþotunni sinni og varar við losun gróðurhúsalofttegunda. Clinton elskaði minnihlutahópana. Carter vann fyrir friðinn. Kennedy var yndislegur maður. Þetta eru ekki fáfróðir repúblikanar. Þessir menn kunna að skrifa kartafla.
Nú er Bush hættur og demókratar við völd, en það breytir ekki því að evrópskir fréttamenn súpa hveljur yfir fáfróðum og brjáluðum repúblikönum sem gætu lagt allt í rúst. Nú er það illmennið Sarah Palin sem hefur tekið sess þeirra Reagans, Quayle og Bush. Hún veit ekki neitt. Stuðningsmenn hennar eru öskrandi kynþáttahatarar. Ef hún yrði forseti einn daginn, þá yrði kannski heimsendir.
Á dögunum fór sem eldur í sinu sú æsifrétt að Palin hefði enn einu sinni sýnt vanþekkingu sína. Í útvarpsviðtali hefði komið í ljós að hún hélt að af Kóreuríkjunum væri það Norður-Kórea sem væri bandamaður Bandaríkjanna. Þessir repúblikanar vita aldrei neitt.
Þegar hlustað var á viðtalið við Palin kom raunar í ljós að hún hafði ítrekað vísað til Norður-Kóreu sem andstæðinga Bandaríkjanna og hafði lýst áhyggjum af því að ríkisstjórn Obama tæki ekki nægilega fast á Norður-Kóreu. Hún átti raunar þessi einu mismæli eftir það, en augljóst var á viðtalinu að hún vissi vel hvað sneri upp og hvað niður á Kóreuskaga. En það þótti flestum evrópskum fjölmiðlum eiga lítið erindi við lesendur sína. Nei, Sarah Palin veit ekkert í sinn haus frekar en aðrir repúblikanar.
Auðvitað geta allir mismælt sig. En evrópskir fjölmiðlar, hafa þeir mikinn áhuga á því að sýna demókrata í sama ljósi og þeir beina sífellt að repúblikönum? Tökum örfá dæmi.
Flestir áhugamenn um Bandaríkin vita að ríki þess eru fimmtíu. Ef Reagan, Bush, Quayle eða Palin hefðu látið út úr sér að ríkin væru 57 eða svo að tölu, í hversu mörg ár ætli það yrði rifjað upp? En hefur einhver heyrt margar fréttir af því að vonarljósið Barack Obama hafi einhvern tímann talað eins og hann héldi að ríkin væru svona sextíu?
Ef Reagan, Bush, Quayle eða Palin hefðu gefið til kynna að þau héldu að til væri þjóðríkið Evrópa, ætli það hefði þótt hlægilegt í evrópskum fjölmiðlum? En ef Barack Obama héldi þetta?
Ef Reagan, Bush, Quayle eða Palin hefðu haldið að til væri tungumálið austurríska, ætli það hefði þótt fyndið? En ef Barack Obama heldur það?
Svona má áfram telja. Það mætti sýna dæmi sem gæfu til kynna að Obama teldi stjórnarskrá Bandaríkjanna vera meira en 2000 ára gamla eða sýna hann, þar sem hann ræðir um sjórán við Sómalíu og hvetur til harða aðgerða gegn einkalífi – það er að segja ruglaði saman orðunum „piracy“ og „privacy“. Dæmin í þessa veru gætu verið fjölmörg. En slík dæmi myndu ekki sanna að Obama sé hálfviti, sem hann er alveg vafalaust ekki, heldur geta allir mismælt sig, ekki síst þegar þeir tala án undirbúnings og yfirlestrar. Það er munur á mismælum og vanþekkingu. Það sem menn mættu hins vegar velta fyrir sér, er hversu sanngjarnir evrópskir fjölmiðlar og álitsgjafar eru þegar þeir bregða upp mynd af bandarískum stjórnmálamönnum. Og hvort verið geti að þeir sýni sömu sanngirni og hlutleysi í fréttaflutningi af öðrum málum, erlendum sem innlendum.