Laugardagur 4. desember 2010

338. tbl. 14. árg.

S má getraun: Hvaðan kemur eftirfarandi yfirlýsing um „þjóðareign“ náttúruauðlinda?

„Þetta getur fyrst í stað aðeins orðið, að ofbeldi sé beitt við borgarastéttina, að því er varðar eignarrétt hennar og framleiðsluhætti… …í þeim löndum, sem lengst eru komin í þróuninni, mun yfirleitt vera hægt að beita þeim ráðstöfunum, sem nú skulu taldar: 1. Eignanám á lóðum og lendum, en jarðrentan falli til þarfa ríkisins…“

a) Stefnuskrá 22ja af 25 álitsgjafa í stjórnlagaþingsnefndinni.
b) Stefnuskrá Unabomber, sem birt var í New York Times og Washington Post.
c) Siðferðiskafli skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
d) Kommúnistaávarpið í útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags með gamla Landsbankann sem bakhjarl.

Í fyrstu verðlaun er baggi af heyi. Verðlauna má vitja hjá þjóðinni.

Þ orvaldur Gylfason prófessor er einn þeirra sem valdist til ráðgjafastarfa í stjórnlagaþingsnefndinni. Hann lagði það til í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í vikunni að alþingismönnum yrði fækkað verulega eða niður í 37 sem er fækkun um 40%. Því miður ræður Þorvaldur engu um þetta því fjöldi þingmanna er bundin í stjórnarskrá þá sem aðeins Alþingi getur breytt. Þarf þingið raunar að samþykkja breytingar tvisvar með alþingiskosningum í milli til að þær öðlist gildi.

Þorvaldur hefur það hins vegar í hendi sér að fækka álitsgjöfunum á stjórnlagaþinginu. Hann gæti gert þá tillögu í upphafi stjórnlagaþingsins að 40% álitsgjafanna sem þar sitja fari heim og afsali sér launum. Engir varamenn koma í þeirra stað svo þetta er alveg rakið. Annað hvort með hlutkesti eða þá að þeir sem hlutu innan við 1% fylgi meðal atkvæðisbærra manna. Dugi það ekki getur hann að minnsta kosti fækkað fulltrúum um 4% með því að fara sjálfur heim.

En eins og Þorvaldur benti á er ólíklegt að alþingismenn fækki sjálfum sér. Ætli það sama gildi ekki um álitsgjafana á stjórnlagaþinginu?