U ndanfarin ár hafa fjölmiðlar af og til sagt spenntir frá því að hinn eða þessi ætli sér að birta opinberlega trúnaðarskjöl fyrirtækja eða stofnana eða jafnvel tölvupósta einstaklinga. Er sagt frá þessu eins og ekkert sé sjálfsagðara og raunar mjög spennandi. Egill og Spegill fá gæsahúð.
Eins og orðin trúnaðarskjöl og einkatölvupóstar benda til er um eign einhvers að ræða. Þessari eign hefur þá hreinlega verið stolið og einhver ætlar að hagnýta sér þýfið, oftast fjölmiðlar, bókahöfundar eða vefsíður.
Menn geta rétt ímyndað sér viðbrögðin ef fallegu málverki væri stolið af vegg á heimili eða stofnun og þjófurinn myndi tilkynna að á miðnætti næstkomandi laugardags gæti almenningur barið verkið augum í beinni útsendingu á vefsíðu þar sem þjófurinn sjálfur eða einhver nautur hans stæði bísperrtur með málverkið á arinhillu sinni.
Myndi nokkur reyna að réttlæta þetta með því að þarna gæti almenningur „nýtt sér rétt sinn til upplýsinga“ sem „eigi erindi við hann“?
Einhverjir hafa lýst mönnum sem haga sér svona sem hryðjuverkamönnum. Það er nú óþörf lotning. Þeir sem stela bréfum fólks og skjölum og hagnýta sér eru bara ótíndir þjófar.