F yrir einu og hálfu ári birti bandaríska tímaritið Time forsíðuumfjöllun um væntanlegan útdauða Repúblikanaflokksins. Obama var tekinn við, Bush hafði verið rægður miera en flest sem rægt er, demókratar stýrðu báðum þingdeildum og repúblikanar höfðu ekki einu sinni þingstyrk til málþófs í öldungadeildinni. Óháðir kjósendur, sem svo eru kallaðir, höfðu snúið við þeim baki og engar líkur á að það breyttist aftur. Vinstrimenn austan hafs og vestan glöddust og fengu enn eina sönnunina fyrir siðferðilegum yfirburðum sínum.
Hvað gerðist? Grasrótarhreyfing, kennd við teboð, fór á kreik. Forystumenn hennar töluðu af einurð fyrir hefðbundnum gildum repúblikana, hræddust hvorki fjölmiðlamenn, álitsgjafa né pólitískan rétttrúnað. Kröfðust meira frelsis, mun hóflegra ríkisvalds og lægri skatta. Stóðu fast á sínu, fóru ekki á taugum yfir neikvæðri umfjöllun, gáfu hvergi eftir. Hikuðu ekki við að gagnrýna Obama, demókrata og fjölmiðlamennina þeirra.
Það „óháða“ fylgi sem repúblikanar voru búnir að hrekja frá sér sneri aftur. Fólk vaknaði upp undan glansmyndinni af Obama og demókrötunum hans. Miðjumoðarar Repúblikanaflokksins féllu margir í prófkjörum þar sem teboðsmenn voru í kjöri. Fjöldi teboðsmanna náði kjöri á þing, svo sem í mikilvæg öldungadeildarsæti. Úti um öll Bandaríkin reyndist hann auðvakinn til lífsins, flokkurinn sem álitsgjafarnir höfðu afskrifað.
Teboðshreyfingin breytti landslagi bandarískra stjórnmála. Kosningarnar í nóvemberbyrjun voru fyrst og fremst sigur hennar, og Söruh Palin sem hefur verið sá talsmaður hennar sem mest hefur borið á.
Vinstrifréttamenn, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar á Vesturlöndum, óttast þetta vitaskuld. Hjá þeim hefur Sarah Palin nú tekið sæti þeirra Bush, Reagans og Goldwaters, enda verður hver sómakær vestrænn blaðamaður alltaf að vita af einum geðveikum, ótalandi, stórhættulegum en jafnframt nautheimskum repúblikana, sem má vara við í ræðu og riti.
Nú hefur líka fæðst nýr söguskilningur. Teboðsmenn töpuðu sko kosningunum. Í nokkrum ríkjum, einkum þar sem fyrri leiðtogar repúblikana undu ekki úrslitum forkosninga, vantaði nýja frambjóðendur repúblikana nokkur prósent til að ná kjöri. Það sýnir auðvitað að teboðsmenn hafa ekki hljómgrunn og repúblikönum því hollast að halda áfram með gömlu miðjumoðarana.
Þeir sem þetta halda ættu að rölta út á bókasafn og finna sér nokkurra mánaða gamalt eintak af Time.
Og það sem gat gerst í Bandaríkjunum getur gerst víðar. Kannski raknar Sjálfstæðisflokkurinn einhvern tímann úr rotinu. En þá mun ekki standa á álitsgjöfunum að vara við.