Miðvikudagur 3. nóvember 2010

307. tbl. 14. árg.

S amkvæmt álitsgjöfum er nú mikið ákall á „meiri fagmennsku“ í æðstu stöðum. Fólk hafnar „fjórflokknum“, bæta þeir við. Ef nú yrði kosið til alþingis myndi nýr „Besti flokkur“ sópa að sér fylgi.

Jæja já.

Í gær ræddi Ríkissjónvarpið við einn valdamesta mann landsins, Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóra. Umræðuefnið var ekkert gamanmál, hækkanir á útsvari og orkuverði og uppsagnir fjölda fólks sem starfaði hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Fréttina má sjá hér. Svona fór þetta fram:

Borgarstjóri: Ja það má búast við því, það er samt ekkert útséð með það, það er nokkuð sem mig persónulega langar ekki að gera, og mig langar til þess að leita allra leiða, raunveruleikinn er samt sá að tekjur borgarinnar hafa dregist rosalega mikið saman og við þurfum að brúa eða fylla upp í stórt gat og erum að reyna að leita allra leiða til þess að gera það.
Fréttamaður: Í nýrri fjárhagsáætlun Orkuveitu Reykjavíkur er gert ráð fyrir fjögurra og hálfs milljarða króna hagnaði á næsta ári. Fréttastofa spurði hvort uppsagnir og gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar væru nauðsynlegar í þessu ljósi.
Borgarstjóri: Þetta eru svona einhverjir talnaleikir sem að, ég kann ekki einu sinni að útskýra þá sko.
Fréttamaður: Fjögurra og hálfs milljarða króna hagnaður, það hljómar ekki eins og illa statt fyrirtæki, hvort sem þetta eru talnaleikir eða ekki.
Borgarstjóri: Nei ég bara ég skil ekki, skil ekki hvernig hægt er að fá þetta út, fá þetta út, ég man ekki hvað orðin heita einu sinni sem að eru notuð til þess að setja þetta svona upp.
Fréttamaður: En en en…
Borgarstjóri (snýr sér við): Björn, hvað heitir þetta aftur?
Björn Blöndal (aðstoðarmaður borgarstjóra, birtist undan vegg): Nú, náttúrlega skoða skuldirnar, sko, áður en við spurjum…
Drengur með jólasveinahúfu hleypur í burtu.
Borgarstjóri: Já það er eitthvað svoleiðis, já þetta er eitthvað…
Björn Blöndal: Það eru talsvert stórir gjalddagar á næsta ári
Borgarstjóri: Já.
Björn Blöndal: Sem þarf að eiga fyrir.

Atkvæði Besta flokksins nægja ekki til að gera Jón Gnarr að borgarstjóra. Hann gegnir því embætti með dyggum stuðningi Samfylkingarinnar sem fékk þrjá borgarfulltrúa af fimmtán. Samfylkingin, það er sami flokkur og er nýbúinn að standa fyrir því að Geir Haarde skuli ákærður fyrir að halda ekki ríkisstjórnarfund, og fleiri glæpi gegn mannkyni. Samfylkingin gerir nefnilega kröfur um fagleg vinnubrögð á alvörutímum.