Á dögunum mun Egill Helgason þáttastjórnandi á Ríkissjónvarpinu hafa mælt með nokkrum frambjóðendum til stjórnlagaþings ríkisstjórnarinnar. Þing þetta á að halda fyrir mörg hundruð milljónir króna af (dönsku?) lánsfé ríkissjóðs svo Íslendingar þurfi ekki lengur að „búa við danska stjórnarskrá“. Það er út af fyrir sig tilbreyting að starfsmenn Ríkisútvarpsins þykist ekki vera hlutlausir en samkvæmt lögum um stofnunina eiga starfsmenn hennar að reyna að gæta jafnvægis í umfjöllun um menn og málefni. En Egill lét ekki duga að mæla með nokkrum frambjóðendum og hallmæla þeim sem hafa efasemdir um þetta þinghald. Hann mælti líka sérstaklega gegn ákveðnum frambjóðendum. Egill Helgason segir að ekki megi kjósa þá sem kynna framboð sitt með auglýsingum eða kosta einhverju til með öðrum hætti. „Við skulum varast þá,“ segir Egill.
Hér er komið gott dæmi um það sem Vefþjóðviljinn varaði við þegar sett voru lög sem takmarka mjög möguleika manna til að tjá sig um stjórnmál með auglýsingum og annarri útgáfustarfsemi. Með lögunum var verið að færa fjölmiðlum vald sem áður var dreift um þjóðfélagið. Áður gátu menn leitað til allra fyrirtækja og einstaklinga í landinu eftir fjárstuðningi til að kynna sig. Nú verða menn að „komast að“ í kjaftaþáttunum í fjölmiðlunum til að kynna sjónarmið sín. Það er búið að safna valdinu á fáar hendur. Hvað kostar að komast að í þætti Egils Helgasonar? Hvað þurfa menn að eyða miklum tíma í að viðra sig upp við þáttastjórnendur til að „komast að“ með sjónarmið sín?
N ú hefur borgarstjórn Reykjavíkur lokað Suðurgötu í Reykjavík fyrir umferð til norðurs meðfram gamla kirkjugarðinum milli Skothúsvegar og Vonarstrætis. Umferðin mun að sjálfsögðu ekki hverfa við þessa aðgerð. Hún mun einfaldlega fara um aðrar götur. Annars vegar íbúagöturnar Ljósvallagötu og Garðastræti og hins vegar Tjarnargötu þar sem auk íbúa er leikskóli. Umferðin um þessar götur hefur þegar snaraukist.
Ástæðan fyrir þessari lokun Suðurgötu er að breyta á götunni í hjólreiðastíg að hluta þótt þar verði áfram bílaumferð til suðurs. En hefði ekki bara mátt opna gamla kirkjugarðinn betur til beggja enda og auðvelda mönnum að hjóla þar í gegn? Kirkjugarðurinn er einn fallegasti garður landsins og yrði ólíkt skemmtilegri, skjólbetri og öruggari hjólaleið en utangarðs með annarri umferð á Suðurgötunni.
Þá myndi borgarstjórnin að vísu ekki ná að „þrengja að einkabílnum“. Sem er mörgum borgarfulltrúum slíkt kappsmál að þeir beina bílaumferð hiklaust frá látnum að leikskólabörnum.