R íkisútvarpið fann út í gær að það væri geysileg misnotkun að Bændasamtök Íslands styddu baráttu gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Grafalvarlegir fréttamenn höfðu þarna fundið mál til að fara ofan í saumana á.
Bændasamtök fá opinbert fé í samræmi við „samninga“ þar um. Vefþjóðviljinn er auðvitað andvígur því að félagasamtök séu á framfæri ríkisins.
En úr því fréttamenn Ríkisútvarpsins eru komnir af stað, þá er sjálfsagt að þeir haldi áfram. Bændasamtökin eru ekki bundin sömu hlutleysisreglum og sumir aðrir. Hvernig er til dæmis með Ríkisútvarpið, sem hefur lagaskyldu um hlutleysi bæði í fréttum og allri dagskrárgerð? Hvernig er nú með dagskrárgerðarmennina og viðmælendur þeirra, getur verið að þar sé ákveðnum sjónarmiðum hampað þátt eftir þátt, ár eftir ár, og allt á kostnað ríkisins? Gæti verið ástæða fyrir fréttamenn að afla upplýsinga um það? Eða fréttastofan sjálf, kunn af því að vera mjög vandlát af vali sínu af fréttum af Evrópumálum.
Og hvernig var aftur rannsóknarvinna fréttamanna gagnvart Samtökum iðnaðarins, samtökum sem fengu hundruð milljóna króna á ári í nauðungargjöld af þeim sem ráku iðnaðarstarfsemi, en börðust eins og ljón fyrir fullveldisafsali og inngöngu í Evrópusambandið? Þar var fé beinlínis tekið með valdi af einstökum fyrirtækjum og fært þessum samtökum, sem stóðu í harðvítugri og kostnaðarsamri baráttu. Hvað ætli þau hafi fengið mikið fé með þeim hætti, allt fram á þetta ár?
N jörður P. Njarðvík, sérfræðingur um stjórnskipun, mun hafa sagt í sjónvarpsviðtali í gær, að stjórnskipan hér væri hið versta mál. Hér réðu einstakir flokksforingjar mestu um lykilákvarðanir.
Í hvaða lýðræðisríki ætli það sé ekki þannig?
Það á einfaldlega að draga úr völdum ríkisins yfir málefnum borgaranna. Þannig draga menn um leið úr völdum flokksforingjanna. Engin þörf er hins vegar á því að breyta stjórnsýslunni í málfund eða tilraunastofu ókosinna spekinga.