N ú er rekinn skefjalaus áróður fyrir því að Ísland afsali sér fullveldi sínu og renni inn í Evrópusambandið. Rúmlega hálf ríkisstjórnin og annar stjórnarflokkurinn lifa sem kunnugt er fyrir þetta málefni. Einstakir þáttastjórnendur Ríkisútvarpsins berjast af krafti með þeim ásamt nokkrum fjölmiðlum sem útrásarvíkingar reka enn á kostnað bankanna. Verður spennandi að sjá hversu heilbrigð skynsemi og staðreyndir mega sín gegn áróðursþunganum, sem ekki mun minnka þegar milljarðar Evrópusambandsins sjálfs koma í slaginn af fullum þunga.
Stöð 2 fjallar nú dag eftir dag um „harðlínumenn“ innan vinstri grænna sem skeyti engu um „ögrun við samstarfsflokkinn“, grafi undan Steingrími og hafi myndað „vanheilagt bandalag“ með vondum öflum sem geti orðið til þess að vondir menn komist í ríkisstjórn. Svo eru sýnd viðtöl við furðustjórnmálamanninn Katrínu Jakobsdóttur sem segir að svart sé hvítt, en vinstrigrænum sagt til halds og trausts að Katrín sé „einarður andstæðingur Evrópusambandsins“, svo henni sé óhætt að trúa. Hún hafi líka það hlutverk innan flokksins að „bera klæði á vopnin“.
Þessar „fréttir“ segir Heimir Már Pétursson og vitnar ekki í nokkurn mann nema sjálfan sig. Hann nefnir ekki hverjir það séu, aðrir en þeir félagar Heimir Már og Össur Skarphéðinsson, sem sjái heiminn svona, hann nefnir ekki að hinn „einarði Evrópusambandsandstæðingur“ Katrín Jakobsdóttir greiddi á alþingi atkvæði með inngöngubeiðni í Evrópusambandið og gegn því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um þá ákvörðun og hún hefur í engu máli greitt atkvæði öðru vísi en Steingrímur J. Sigfússon og aldrei mælt orð sem fari í bága við skoðanir leiðtogans. Starf hennar við að „bera klæði á vopnin“ felst líklega í því að reyna að afvopna þá sem vilja að flokkurinn fylgi fremur eigin stefnu en stefnu Samfylkingarinnar.
Annars er ótrúlegt ef Steingrími og félögum tekst enn að telja fólki trú um að alger uppgjöf fyrir Samfylkingunni sé nauðsynleg því annars komi svakalega vondir menn til valda. Dettur einhverjum í hug að Samfylkingin ryfi stjórnarsamstarfið ef Vinstrigrænir hættu að láta troða á sér? Og hvað, með hverjum færi Samfylkingin í stjórn? Stjórnarsamstarf hennar og Sjálfstæðisflokksins er útilokað og þurfa menn ekki að rifja fleira upp en nýlega ákæru á hendur Geir H. Haarde til að skilja að slíkt verður ekki. Sjálfstæðisflokknum dettur ekki í hug að setjast í ríkisstjórn með Samfylkingunni og henni dettur ekki í hug að bjóða honum það. Samfylkingin vill ekki aðeins ganga í Evrópusambandið heldur á fleiri drauma eins og að kollvarpa sjávarútveginum og leggja Icesaveskuldir á landsmenn svo dæmi séu tekin. Samfylkingin mun ekki kasta þessum draumum frá sér þótt vinstrigrænir stöðvi inngönguna í Evrópusambandið, enda myndi enginn flokkur taka að sér gólftuskuhlutverk vinstrigrænna.
Þetta vita auðvitað allir sem snefil hafa af pólitískri reynslu og þar með Heimir Már Pétursson. Annars er skemmtilegt að sjá hann taka pólitísk viðtöl við Össur Skarphéðinsson þar sem Össur fær að mala og mala. Þeir hafa lengi átt samleið og skammt er að minnast landsfundar Samfylkingarinnar 2005 þar sem báðir urðu því miður að lúta í lægra haldi fyrir keppinautum sínum, en þar tapaði Össur formannskjöri og Heimir Már varaformannskjöri.
Fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar eru sífelld náma upprifjunarefna og ástæða til að minna á þær sem enn eru ekki uppseldar í Bóksölu Andríkis. Í Fjölmiðlum 2005 rekur Ólafur Teitur viðtal sem þáverandi fréttastjóri Fréttavaktar 365 miðla, Heimir Már Pétursson, tók við þáverandi formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur:
Mér sýndist Heimir Már vera dálítið óstyrkur í upphafi viðtalsins. Ég vona að ég sé ekki að lesa of mikið í fasið, en víst er það til dæmis fremur óhefðbundin nálgun að kveðja viðmælandann strax í upphafi viðtals. „Komdu sæl og vertu blessuð. – Og velkomin.“
En fall er fararheill og Heimi Má fórst verkefnið reyndar þokkalega úr hendi. Já, honum óx ásmegin jafnt og þétt eftir því sem leið á viðtalið. – Alveg þangað til hann varð aðeins of öruggur. Undir lokin spurði hann formann sinn nefnilega hvaða fylgi væri ásættanlegt fyrir flokk þeirra í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Og fylgdi spurningunni úr hlaði með því að vitna í nýjustu skoðanakannanir. Hann orðaði þetta svona: „Hvað getur þú sætt þig við? Við erum í tutt, þið eruð í… þið eruð í tuttugu og sex prósentum.“ |