Fimmtudagur 7. október 2010

280. tbl. 14. árg.

Í slenskir fjölmiðlar flestir, að ekki sé talað um álitsgjafana, eru yfirleitt sjóndaprir og skilningsseinir þegar kemur að alvörumálum. 

Fyrir bráðum tveimur árum var efnt til óláta og uppþota, beinlínis til að grafa undan og reyna að koma ríkisstjórn frá völdum. Á endanum tókst það, enda lagðist saman eðli Samfylkingarinnar, deyfð Sjálfstæðisflokksins, skefjalaus notkun ríkisfjölmiðla og aðgerðahræðsla lögreglunnar, sem sat raunar eins og aðrir undir samfelldum árásum úr Efstaleiti og frá þáverandi stjórnarandstöðu.

En ríkisstjórn var rutt frá með aðferðum sem voru að minnsta kosti nálægt því að flokkast undir valdarán. Um þetta nota fjölmiðlamenn hugtakið „búsáhaldabyltingin“ og tala eins og þeir séu að lýsa saklausu veðurfyrirbrigði.

Ákaflega athyglisverð ummæli birtust í viðtali sem Morgunblaðið átti í gær við mann nokkurn í tilefni atburðanna við Alþingishúsið á mánudag. Þar sagði viðmælandinn um þá atburði:

Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin

Hver er það nú sem segir þetta? Hver er sá fantur sem leyfir sér að halda því fram að „búsáhaldabyltingunni“ hafi verið „stjórnað bak við tjöldin“? Björn Bjarnason? Stefán Eiríksson?

Nei, maðurinn sem segir að „búsáhaldabyltingunni“ hafi í raun verið „stjórnað bak við tjöldin“, heitir Hörður Torfason.

Hver einasti fjölmiðill mun gæta þess að taka ekki eftir þessu. Ekki síst Ríkisútvarpið, sem auglýsti hvern einasta útifund Harðar í fréttatíma og sendi þá svo gjarnan út beint.