Þ egar tillögur Atlanefndar um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum voru til meðferðar, var áberandi að ljósvakamiðlar virtust forðast að fjalla um efnisatriði tillagnanna og áhorfendur urðu yfirleitt að leita annað eftir umfjöllun um þau grundvallaratriði. Vefþjóðviljinn fór að sínu leyti yfir ákærudrögin og taldi þau fráleit, eins og lesendur blaðsins vita. Meðal þess sem nefnt var í þeirri umfjöllun, þótt lítið væri, var þetta:
Ákæruatriðin á hendur fyrrverandi ráðherrunum fjórum eru fráleit. Fjarstæðust þó á hendur Ingibjörgu Sólrúnu og Árna Mathiesen, sem málaflokkarnir heyrðu ekki einu sinni undir. Enda telur þingmannanefndin sig þurfa að teygja sig sérstaklega langt í þeirra tilviki. Þegar nefndin upplýsir hvaða lagagreinar fólkið er talið hafa brotið, er í tilfelli Ingibjargar Sólrúnar og Árna nefnt að þau séu ákærð til þrautavara fyrir tilraun til að sýna stórfellda vanrækslu og hirðuleysi. Dettur einhverjum í hug að þau hafi ákveðið að gera „tilraun“ til slíks, og hún þá mistekist? Tilraun er ekki gerð óvart eða af athugunarleysi. Hún er gerð af vilja. Eru menn gersamlega búnir að missa vitið? Ætla þingmenn Samfylkingarinnar að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Mathiesen fyrir tilraun til hirðuleysis? |
Þegar ákærutillögurnar voru afgreiddar á Alþingi tilkynnti forseti Alþingis, eins og hún væri að tilkynna dagskrá næsta fundar, að Atlanefndin gerði breytingu á tillögu sinni og þau Árni og Ingibjörg skyldu ekki ákærð fyrir tilraun til brots heldur hlutdeild í broti annarra. Sagði forsetinn að sú breyting skoðaðist samþykkt ef enginn andmælti. Þingmenn þögðu auðvitað allir við þessu.
Þessi breyting var svo sem eðlileg, þar sem tæknilega gat að minnsta kosti gengið upp að saka fólkið um hlutdeild, og hætta þar með hinni fráleitu ásökun að þau hefðu hreinlega gert tilraun til að vanrækja skyldur sínar. Sjálfsagt finnst flestum þetta smámál, eins og flest annað. En hér er vakin athygli á þessu, því þetta segir talsverða sögu um vísindin að baki tillögum Atlanefndarinnar, tillögum sem sagt var að helstu sérfræðingar landsins hefðu lesið og samþykkt, þótt nöfn þeirra væru að vísu ríkisleyndarmál. Það er allt annað að ákæra fyrir hlutdeild en tilraun og hefði mátt ætla að margra mánaða starf Atlanefndar hefði dugað til að gera þó þetta rétt. Hvaða rannsóknir og speki ætli búi að baki öðru hjá nefndinni?
H allar undan fæti. Nú er Mark Flanagan farinn burt og landið því nær stjórnlaust. Landsmenn setja nú allt traust sitt á þá Franek Rozwadowski og Steingrím J. Sigfússon og treysta því að þeir láti ekki bugast þótt Flanagan sé farinn. En hvað gera Íslendingar ef þeir fara einnig, sem sjálfsagt endar með, ef landsmenn láta ekki af stífni sinni og samþykkja að borga óviðkomandi skuldir, stöðva framkvæmdir og hækka skatta og gjöld?