E ftir að meirihluti alþingismanna hafði ákveðið að Geir H. Haarde skyldi ákærður ræddi Ríkissjónvarpið við Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún sagðist ósátt við niðurstöðuna og að ekkert tilefni hefði verið til að ákæra Geir. Næst var hún spurð um ríkisstjórnarsamstarfið og, eins og alltaf, sagði hún nýjustu atburði engin áhrif hafa á það. Bíði menn nú aðeins við. Það er afar alvarlegur hlutur að gefa út ákæru á hendur einstaklingi. Að gera slíkt að tilefnislausu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir sagði 33 alþingismenn hafa gert, er stóralvarlegt. Það gerðu fimm ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu. Finnst henni bara sjálfsagt að þeir sitji í ríkisstjórn áfram? Lætur forsætisráðherra það óátalið að við ríkisstjórnarborðið sitji, eins og ekkert sé, fimm ráðherrar nýbúnir að ákæra einstakling að tilefnislausu, að mati hennar sjálfrar? Var þá ekkert að marka depurð Jóhönnu yfir niðurstöðunni?
F orkólfar ríkisstjórnarinnar segja alltaf, hvað sem gerist, að það hafi „engin áhrif á stjórnarsamstarfið“. Sennilega munu þau segja það sama, jafnvel þótt flokkar þeirra hryndu í næstu kosningum. Og ef ýmsir stuðningsmanna þeirra mættu ráða, þá væri það þannig.
S teingrímur J. Sigfússon var einnig tekinn stuttlega tali. Hann var mjög alvarlegur í bragði enda málið að sögn mjög erfitt fyrir hann, sem þó var ekki ákærður svo vitað sé. Hann tók fram að með samþykkt Alþingis hefði að sjálfsögðu ekki verið kveðinn upp neinn dómur yfir þeim mæta manni Geir Hilmari Haarde.
Nei, því var nú bara lýst yfir að meiri líkur en minni væri á að sanna mætti á hann tilteknar sakir fyrir dómi.
Útgáfa ákæru yfir einstaklingi er yfirlýsing ákærandans, í þessu tilviki Alþingis, að hann telji meiri líkur en minni á því að sanna megi sök á einstaklinginn. Það er ekki bara einhver hlutlaus yfirlýsing.
SS umir meirihlutamenn í þessu máli sögðu og skrifuðu að einungis væri verið að ákveða ákæru en í því fælist enginn dómur og enginn niðurstaða. Svo myndi landsdómur en ekki þingmenn tjá sig um sekt eða sakleysi.
Auðvitað á landsdómur þar síðasta orðið. En þingmenn voru vissulega að kveða upp dóm fyrir sitt leyti. Hvers vegna lagði Atlanefndin ekki til að allir tólf ráðherrar fyrri ríkisstjórnar yrðu ákærðir? Það er auðvitað vegna þess að í útgáfu ákæru er falið mat á sönnun sektar. Meirihluti Atlanefndar taldi að sanna mætti sök fjögurra af tólf ráðherrum, en ekki hinna átta. Enginn þingmaður lagði til að neinn hinna átta yrði ákærður. Í því var auðvitað fólginn dómur þeirra yfir refsinæmi starfa þeirra.
FF leiri veittu viðtöl. Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, var spurður hvers vegna hann vildi ákæra Geir Haarde en ekki aðra, svo sem Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Sagðist hann hafa skoðað málin vel og lengi og rannsakað málavexti mjög vel, en Geir hefði haft stöðu og völd og upplýsingar til að grípa inn í. Sagði hann meðal annars: „Mín niðurstaða er sú að Geir H. Haarde, sem er fjármálaráðherra frá árinu 1995, hafi haft allar upplýsingar sem hann þurfti til þess að grípa til markvissra viðbúnaðaráætlana og tryggja það að þeim væri fylgt kröftuglega eftir.“
Nú skiptir auðvitað litlu um réttmæti ákæru hvort og þá hvenær Geir Haarde varð fjármálaráðherra. En hann varð það árið 1998 en ekki 1995.