A ndríki gaf fyrir nokkrum árum út ritið Löstur er ekki glæpur eftir hinn leiftrandi hugsuð Lysander Spooner. Það er sérstakt ánægjuefni að nýlega kom út ævisaga þessa áhugaverða manns, Lysander Spooner: American Anarchist eftir Steve J. Shone aðstoðarprófessor í stjórnmálafræði við Winona State University.
Spooner hristi ekki aðeins upp í samferðamönnum sínum með mergjuðum hugmyndum heldur lét verkin einnig tala. Meðal annars með því að opna lögmannsstofu án lögverndaðra réttinda og með því að hefja keppni við ríkispóstinn sem naut þá sem nú lögverndunar.
Þótt Spooner hafi verið uppi á 19. öld hafði hann sitt að segja um ýmis mál sem nú ber hátt. Það var til að mynda ekki út í loftið að honum var haldið á lofti í réttarhöldum hér á landi nýlega. Það var heldur ekki að ástæðulausu sem Clarence Thomas hæstaréttardómari vitnaði til frumlegra lögskýringa Spooners í hinu mikilvæga máli McDonald gegn Chicago þar sem tekist var á um réttinn til byssueignar. Spooner var að vonum mikill andstæðingur þrælahaldsins í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann hélt því ætíð fram að þrælahaldið bryti í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna og nýtti hana óspart gegn óréttlætinu. Hann benti meðal annars á að þrælahaldið gengi gegn meðfæddum rétti manna til að bera skotvopn sér til sjálfvarnar, líkt og segir í annarri stjórnarskrárviðbótinni.
Og jú, Spooner hefur ráð handa fjármálaþjáðum. Það er ekki víst að honum hefði komið á óvart að mörg hundruð bankar á Vesturlöndum hafi lent í stórkostlegum vandræðum að undanförnu þótt þeir hafi haft fleiri reglur og meira eftirlit að styðja sig við en nokkurt annað viðskiptabrölt í veraldarsögunni. Því hann lagði einmitt til að engar sérstakar reglur giltu um banka.