Fimmtudagur 2. september 2010

245. tbl. 14. árg.

R íkisstjórnarflokkarnir hafa verið í uppteknir við afar mikilvæg mál að undanförnu. Hin mikla vinna þeirra bar ávöxt í dag. Ögmundur er kominn aftur í stjórnina og Guðbjartur í stað Kristjáns. Það er síðasta hálmstrá stjórnarflokkanna að reyna að telja landsmönnum trú um að stjórnin hafi farið frá og ný komið í staðinn.

Forsætisráðherra segist ekki útiloka frekari breytingar á stjórninni um næstu áramót. Það segir hún til að halda þingmönnum við efnið. Verð ég kannski ráðherra næst? Í þessari umferð var því var lekið í fjölmiðla að Oddný Harðardóttir, sem mun vera þingmaður Samfylkingarinnar, yrði líklega ráðherra. Það hefur gefið öllum hinum von.

Að Guðbjartur Hannesson sé orðinn ráðherra er hins vegar mjög sérstök kveðja til landsmanna. Hann gekk lengst þingmanna, að Birni Val Gíslasyni meðtöldum, í því að troða ríkisábyrgð á mislukkuðu viðskiptaævintýri einkafyrirtækis í gegnum þingið. Ábyrgðin á Icesave reikningunum átti að samsvara öllum kostnaði ríkisins við heilbrigðiskerfið í sjö ár. Þegar þingið hafði sett nokkra fyrirvara við þessa ábyrgð reyndi ríkisstjórnin í samvinnu við bresk og hollensk stjórnvöld að þynna þessa litlu fyrirvara út. Guðbjartur gekk vasklega fram í þágu þessara stjórnvalda gegn íslenskum almenningi. Þegar tekist hafði að gera fyrirvarana nær marklausa á Alþingi í lok nóvember 2009 sagði Guðbjartur í viðtali við Ríkissjónvarpið:

Ja allavegana að mínu áliti, að þessar breytingar séu ásættanlegar, og séu sumar hverjar betri og aðrar kannski svipaðar eftir þessar breytingar, þannig að það sé óhætt að samþykkja þessa ríkisábyrgð miðað við fyrri afgreiðslu.

Guðbjartur bauð landsmönnum upp á þau hreinu ósannindi að Bretar og Hollendingar hefðu gert kröfu um breytingar á fyrirvörunum sem væru „sumar hverjar betri“ fyrir Íslendinga.

Eins og menn vita létu kjósendur ekki blekkjast og felldu breytingar Guðbjarts með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010.