F élagarnir Gísli Marteinn Baldursson og Egill Helgason hafa sett fram þá kenningu að hægri menn og eftir atvikum frjálshyggjumenn séu á móti hjólreiðum. Egill sannaði kenninguna með sögu af því að á áttunda áratugnum hefðu börn í Vesturbænum eitt sinn hrópað kommúnisti að vinstri manni… sem var á hjóli.
Gísli leiðir kenninguna af því að ýmsir hægri menn hafa gert athugasemd við tal hans um að bíleigendur í Reykjavík séu ómagar á hinu opinbera. Þó má vera ljóst að bíleigendur á höfuðborgarsvæðinu myndu stórhagnast á því að hið opinbera hætti afskiptum af gatnakerfinu en felldi á móti niður sértæka skattheimtu á bíla og eldsneyti. Gísli Marteinn hefur svo sérstakar áhyggjur af því að bílum sé lagt í stæði og yfirskyggja þær jafnvel áhyggjur hans af því að bílarnir séu á hreyfingu með tilheyrandi hávaða, mengun og látum. En er ekki borgarstjórnin hans Gísla í félagi við ríkisstjórn vinstri grænna að útbúa 1600 bílastæði innandyra við tónlistarhúsið? Mun borgarstjórnin svo ekki örugglega setja gjarðabana fyrir allt að tvö reiðhjól á afvikinn stað suðaustan við höllina? Þá geta vinstri grænir haldið landsfund þar þótt fjöldi gesta sem mæta á hjóli tvöfaldist.
Þessi málflutningur er raunar dæmi um sígilt vandamál frjálshyggjumanna. Frjálshyggjumenn eru sagðir andvígir alls kyns hlutum af því að þeir vilja ekki að hið opinbera ráðskist með þá.
Hvað hefur ekki Vefþjóðviljinn fengið mörg bréf frá fulltrúum menningarinnar sem telja það mikinn fjandskap við menningu að Vefþjóðviljinn hafi andæft því – frá 1997 þegar tónlistarhús átti að kosta skattgreiðendur 1.200 milljónir og fram á þennan dag þegar kostnaðurinn stefnir í 30.000 milljónir króna – að skattgreiðendur séu neyddir til að taka þátt í byggingu tónlistarhúss? Sömuleiðis máttu þær örfáu hræður sem andmæltu því fyrir áratug að hæstu bætur í sögu velferðarkerfisins rynnu til hátekjumanna í fæðingarorlofi sitja undir því að vera á móti velferð barna, jafnrétti kynjanna og gott ef ekki kynlífi líka að mati virðulegs rithöfundar.
Franski rithöfundurinn og þingmaðurinn Frédéric Bastiat skrifaði árið 1850 í riti sínu Lögunum:
Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins og þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn. |
Egill Helgason hefur gott færi til að átta sig á þessu einmitt núna. Hann er fremur andvígur styrkjum ríkisins til landbúnaðar og fær vafalaust að heyra að hann sé andvígur landbúnaði. Þó ætti að blasa við að svo er ekki.