Þriðjudagur 24. ágúst 2010

236. tbl. 14. árg.

N ú er tími sumarleyfanna senn allur. Þeir sem hafa tök á að taka sæmilegt leyfi og kúpla sig frá hversdeginum, finna fljótt hvílík endurnæring slíkt er. Og þó Ísland sé fallegt og þess verði seint notið endanlega, þá getur gott frí í öðru landi hresst menn ákaflega, ef skynsamlega er farið að.

Eitt mikilvægasta hvíldarráð frísins, er að kveikja ekki á tölvu. Fá stutt frí frá vefþrefi. Tveggja til þriggja vikna frí, þar sem ekkert minnir þreyttan huga á leiðinlegustu hluta íslenskrar þjóðmálaumræðu, getur endurnært hvern venjulegan mann og næstum tryggt honum lífsgleði í nokkra daga, eftir að heim er komið og búið er að opna tölvu. En vitaskuld er ekki öll umræða á vefnum til skammar, og myndi vefrit varla kunna við að halda slíku fram af mikilli hörku. Raunar má margt fróðlegt og áhugavert finna á vefnum, eins og nærri má geta þegar hugsað er til þess hvílíkt magn er þar af ólíku efni. En eitt það versta við íslenska stjórnmálaumræðu eru veföskrin, þar sem hrópaðar eru órökstuddar svívirðingar að fólki, aukaatriði eru gerð að aðalatriðum, marghraktar rangfærslur eru fullyrtar, glæpir bornir á nafngreint fólk, hvatt er til ofbeldis og glæpaverka og gerð hróp að þeim sem reyna að ræða mál af yfirvegun. Þetta er iðulega gert undir dulnefnum, og umsjónarmenn vefjanna virðast halda að þeir beri þá ekki ábyrgð á þessum hluta vefja sinna.

Þegar slíkt hefur gengið mánuðum og jafnvel árum saman, telja stjórnvöld kominn skynsamlegan jarðveg fyrir stjórnarskrárbreytingar með hraði, og stjórnarandstaðan þorði ekki að andæfa.

Á íslenskum fjölmiðlum koma reglulega upp æsingamál, þar sem vonlaust virðist að koma skynsemisorði að. Getur þá hvaða bábilja sem er orðið að viðteknum sannindum. Á dögunum var yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu svældur úr starfi, en hann hafði áratuga farsælan feril að baki og undir forystu hans höfðu rannsóknir kynferðisbrota tekið stakkaskiptum. En hann var skyndilega ákærður fyrir hugrenningaglæp og hugsanalögreglan var fljót á stað, en sú lögregla er ótrúlega vökul þegar kemur að öllu því sem tengist kynferðisbrotum. Virðist sem skynsemi og yfirvegun sé jafnan fyrsta fórnarlambið þegar umræða verður um slík mál. Er þess eflaust skammt að bíða að enginn þori að opna munninn um þau, nema til að endursegja það sem þeir treysta að hugsanalögreglan leyfi. Svo skemmtilega vill svo til að í öðrum málum eru þeir í hugsanalögreglunni geysilegir talsmenn tjáningarfrelsis og umburðarlyndis.