Þ ó margt sé lítils virði í svonefndum „bloggheimum“, þá eru þeir ekki alslæmir, eins og næstum mætti segja um „athugasemdir“ sem menn skrifa undir dulnefnum á ýmsa umræðuvefi. Eiður Guðnason, fyrrverandi fréttamaður Ríkisútvarpsins, alþingismaður og ráðherra Alþýðuflokksins og síðast sendiherra, heldur til dæmis úti bloggi sem stundum mætti kalla hrollvekjandi. Þar fjallar Eiður um málfar í fjölmiðlum, einkum netmiðlum og ljósvakamiðlum, en einnig dagblöðum, og eru mörg dæmin með ólíkindum. Stundum hlýtur lesandi Eiðs að velta fyrir sér, hvort fjölmiðlamenn, sem virðast alls ekki þekkja einföldustu reglur málfræði og stafsetningar, séu líklegir til að hafa meira vit á umfjöllunarefnum líðandi stundar. En auðvitað geta allir gert mistök og ósanngjarnt að séu menn dæmdir heildardómi þótt þeir misslái stöku sinnum á lyklaborð í annríki dagsins.
Eiður hlífir pólitískum samherjum ekki fremur en öðrum, í málfarshluta bloggsins. Á dögunum benti hann á þetta:
Það var ekki sýnt mér, því miður, sagði forsætisráðherra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (10.08.2010). Það var og. Hélt mér hefði misheyrst. Hlustaði aftur á netupptökuna. Mér misheyrðist ekki. Og segi bara líka, – því miður. |
Í síðasta pistli sagði hann frá frétt um nýjan menntaskóla á Ólafsfirði:
Fréttamaður sagði: Menntaskólinn á Tröllaskaga er til húsa í gamla gagnfræðaskólahúsinu í Ólafsfirði, sem hefur gengið í gegnum töluverður endurbætur að undanförnu. Nýr skólameistar[i] sagði: … það væri verið að auka fjárveitingar þar inn, og … á Eyjafjarðarsvæðinu njótum við þess að skólinn er að koma inn. Á mbl.is er haft eftir sama skólameistara: : „Við förum að sjá unga fólkið meira heimavið og menntunarstigið eykst. Samvirkni milli menntastofnunar og samfélagsins skiptir máli,“ . Ekki finnst Molaskrifara þetta lofa góðu. Ef hann ætti heima á Tröllaskaga mundi hann sennilega senda börn sín í MA. |
Málfarssíða Eiðs er þakkarverð viðleitni leikmanns til að brýna fjölmiðlamenn til vandvirkni. Margir fjölmiðlamenn hugsa eflaust að þeir séu ekki svo slæmir, að minnsta kosti ekki verri en hinir. Ábendingar Eiðs ættu að verða þeim og öðrum hvatning til að vanda sig, fletta upp í bókum séu þeir ekki vissir, og reyna að forðast innihaldslausa flatneskju froðumálsins.