M enningarnótt var haldin í gærdag og lauk í tæka tíð áður en nótt skall á. Lokapunkturinn var flugeldasýning sem fyrr, en undanfarin ár hefur Orkuveita Reykjavíkur verið látin greiða kostnað við hana, til viðbótar við önnur verkefni, svo sem að dæla vatni í Stykkishólmi, reka fjarskiptafyrirtæki í Reykjavík eða undirbúa ræktun á risarækjum.
Að þessu sinni var tilkynnt að skothríðin yrði í boði fjarskiptafyrirtækisins Vodafone, þótt flugeldarnir hafi raunar verið löngu keyptir. Nýr borgarstjóri hafði efnt til umræðu um það brýna álitamál á vefsíðu sinni, og sitt sýnst hverjum.
Samkvæmt ákvörðun nýs borgarstjórnarmeirihluta hafði Orkuveitan raunar staðið í fleiri ákvörðunum. Gjaldskrá skal hækkuð, forstjóri rekinn, nýr ráðinn til bráðabirgða en auglýst eftir þeim þriðja. Ekki þótti hins vegar ástæða til að ræða þau mál við borgarbúa fyrr en eftir að ákvarðanir höfðu verið teknar.
Raunar er það auðvitað skiljanlegt. Slíkar ákvarðanir eiga kjörnir fulltrúar að taka og eru yfirleitt kosnir til þess. Að vísu var einn flokkur víst kosinn í einhverju allt öðru skyni í vor, að minnsta kosti ef marka má álitsgjafa og stjórnmálaskýrendur, en það breytir ekki því að sá flokkur sinnir nú hinum hefðbundnu verkefnum, enda hikaði flokkurinn ekki við að setjast í meirihluta og krefjast þess að oddviti sinn yrði borgarstjóri.
Það hvort skotið skuli upp flugeldum eða ekki, skiptir ekki miklu í rekstri borgarsjóðs, þótt ágætt sé að sú spurning sé rædd. Önnur atriði skipta hins vegar mun meira máli. Reykjavíkurborg innheimtir hátt útsvar af borgarbúum, þótt útsvarið sé ekki lengur í hámarki. Einnig eru innheimtir fasteignaskattar og önnur gjöld. Það skiptir máli hvernig farið er með þessa peninga og hvort ekki megi finna leiðir til þess að taka minna af borgarbúum.
Nú er hart í ári hjá ýmsum og í fréttum birtast oft reiðir stjórnmálamenn og forystumenn hagsmunasamtaka sem hafa uppi stór orð um „vanda heimilanna“. Öll „heimili“ borga skatta. Aukin skattheimta eykur á „vanda heimilanna“. Hún minnkar ráðstöfunarfé fólks og hún dregur úr möguleikum fyrirtækja, minnkar möguleika fyrirtækja til að fjölga starfsfólki og hækka laun, eykur þörf fyrirtækja til að fækka starfsfólki og lækka laun. Borgarfulltrúar, bæjarfulltrúar, alþingismenn og aðrir þeir sem fara með málefni hins opinbera, ættu að leita leiða til að lækka skatta. Frá ríkisstjórninni berast hins vegar nýjar og nýjar tillögur að hækkun skatta, með tilheyrandi byrðum á „heimilin í landinu“ og fyrirtækin.
Vitaskuld leiðir skattheimta og ríkisútgjöld í framhaldi af henni ekki til fullkominnar sóunar. Ríkið skattleggur fjölda fólks og notar peninginn til að byggja brú einhvers staðar. Nokkrir menn fá vinnu við að leggja brúna og brúin styttir einhverja leið. Þetta eru kostirnir, og þá sjá vinstrimenn.
En mörgum sést yfir gallana. Peningurinn sem fór í vinnu mannanna og efnið í brúna, hann var tekinn úr vösum venjulegs fólks. Það fólk fór sjaldnar út að borða, lét ekki gera við bílinn, keypti sér ekki nýja húfu þegar hin týndist í slagveðri á Hringbrautinni. Kalli kokkur missti vinnuna, Beggi bifvélavirki átti einn magran mánuðinn enn og réði ekki við afborgun á húsnæðisláninu, í Húfubúð Henríettu var minna að gera en ella. Kalli, Beggi og Henríetta gengu þungstíg út, en sáu glaðværan vinnuflokk hamast við brúarsmíði og hugsuðu: Já bara ef hið opinbera gerði nú meira svona, þá fengi maður kannski eitthvað að gera.