Föstudagur 20. ágúst 2010

232. tbl. 14. árg.

Á dögunum minntist Vefþjóðviljinn á þær skemmtilegu tilviljanir sem virtust ráða því hversu nákvæmir fréttamenn Ríkisútvarpsins væru þegar þeir segðu frá tiltækjum bandarískra stjórnmálamanna. Þannig sagði Ríkisútvarpið nýlega frá andláti öldungadeildarþingmannsins Robert Byrd, sem sat í deildinni lengur en allir aðrir. Rifjað var upp kjördæmapot hans og aðild hans að þeim óvinsælu samtökum Ku Klux Klan. Aðeins eitt virtist Ríkisútvarpinu ekki eiga erindi við íslenska áheyrendur, en það var fyrir hvaða stjórnmálaflokk Byrd sat í öldungadeildinni til dauðadags. Hann var að sjálfsögðu demókrati.

Skömmu síðar var hins vegar sagt frá stórtíðindum sem þóttu eiga erindi í íslenskar fréttir. Ríkisstjórinn á Hawaii hafði beitt beitt neitunarvaldi gegn nýjum lögum í ríkinu sem hefðu veitt þeim, sem eru í staðfestri samvist með einstaklingi af sama kyni, þau réttindi sem hjónaband veitir. Þessar deilur um hjónabandsskilning á Hawaii eru auðvitað mjög mikilvægt fréttaefni, og nú var sérstaklega tekið fram að illmennið, ríkisstjórinn, væri repúblikani.

Í vikunni sagði Ríkissjónvarpið frá því að Milorad Blagojevich, sem þar til nýlega var ríkisstjóri í Illinois, hefði verið sakfelldur fyrir spillingu. Ætli það hafi þótt eiga erindi í fréttir, úr hvaða flokki hinn sakfelldi ríkisstjóri er? Nei, reyndar var það ekki nefnt einu orði. Þurfa menn þá að velta því lengi fyrir sér hvaðan hann kemur?

Auðvitað er þetta allt tilviljun og smámál, eins og svo margt annað sem stundum er bent á, þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins er annars vegar.

Og raunar þarf ekkert að vera alltaf að segja fréttir af bandarískum stjórnmálum. Íslenskir álitsgjafar og fjölmiðlamenn vita hvernig þau eru. Demókratar eru umburðarlyndir mannvinir, öfgalausir og vel menntaðir, en repúblikanar eru fordómafullir, heimskir, stríðsóðir kynþáttahatarar. Þetta geti allir hlutlausir fjölmiðlar Bandaríkjanna staðfest, líklega allir fjölmiðlarnir nema hin hræðilega stöð, Fox News, sem íslenskir fjölmiðlamenn vita að nærist á heift og hatri. Þeir horfa aldrei á slíka viðurstyggð.