V oldugasta verðlagsnefnd landsins fundaði nýlega og rýndi í Excel-skjöl sem starfsmenn Seðlabankans og Hagstofunnar hafa fóðrað. Í kjölfarið tilkynnti peningastefnunefndin svonefnda að leiga á íslenskum krónum yrði lækkuð um 1%. Rökin fyrir lækkuninni voru þau að nú sæi fyrir endann á kreppunni en hingað til hafa verðlagsnefndafræðin gengið út á að hækka verð á peningum í uppsveiflu en lækka það í lægð. Hafa þessi fræði gefið af sér hverja fjármálakreppuna á fæstur annarri án þess að nokkrum stjórnmálamanni komi til hugar að ef til vill væri farsælla að fela öðrum að ákveða verð á þessum mikilvæga varningi.
Sjálfsagt er það þó ekki nema mannlegt að stjórnmálamenn vilji ekki gefa seðlaprentunarvaldið frá sér. Ásamt auknum ríkisútgjöldum er lausgirt peningamálastefna helsta von þeirra sem vilja ná endurkjöri í næstu kosningum. Með því að snarlækka vexti og gefa á garðann úr ríkissjóði má gera alls kyns hópa ánægða. Einu gildir þótt þar með séu heimili og fyrirtæki nörruð út í fjárfestingar sem byggðar eru á sandi. Kreppan kemur ekki fram fyrr en bólan springur og þá eru góðar líkur til þess að kosningar séu um garð gengnar. Og lækningin við kreppunni er auðvitað meira af ríkisafskiptum; auka útgjöld, taka lán, hækka skatta og lækka vexti. Velkomin á byrjunarreit.