Helgarsprokið 8. ágúst 2010

220. tbl. 14. árg.

S tundum er fullyrt að litlu skipti hverjir séu við völd, þetta séu allt sömu vitleysingarnir. Eins og svo margar aðrar fullyrðingar um íslensk stjórnmál, þá er þessi einfeldningsleg. Þótt vissulega sé enginn stjórnmálaflokkur fullkominn og engin ríkisstjórn sem ekkert má finna að, þá skiptir miklu máli hverjir stjórna og töluverður munur er enn á íslensku stjórnmálaflokkunum, þrátt fyrir löngun yfirborðskenndra fullyrðingamanna til að setja þá alla undir sama hattinn. Dæmigert vitleysistal er söngurinn um „fjórflokkinn“ sem stundum heyrist sunginn, og var skipulega gaulaður fyrir sveitarstjórnarkosningarnar nú í vor.

Meðal þess sem tókst að ná fram, áður en núverandi vinstristjórn hrifsaði stjórnartaumana með aðferðum sem fréttamenn og álitsgjafar hika ekki við að kalla byltingu, rétt eins og slíkt sé bara allt í lagi í lýðræðislandi, var afnám eignarskatts. Hann hafði í raun verið innheimtur í landinu í tæplega hálfa tíundu öld, og fyrir löngu orðinn að óvenjulega ófyrirleitinni skattheimtu. Menn geta átt eignir, sem hafa eitthvert skráð verðmæti, án þess að hafa af þeim nokkrar sérstakar tekjur. Sumar eignir hafa í för með sér mikil útgjöld, svo sem vegna viðhalds, en eigandinn getur verið mjög snauður um lausafé. Hár eignarskattur á slíkan mann reynist honum mikil byrði og getur leitt til þess að hann geti ekki lengur haldið eign sinni, þrátt fyrir að stjórnarherrar kalli hann „breitt bak“ sem eigi að bera „þyngstu byrðarnar“. Með slíkum aðferðum náðu vinstrimenn í Bretlandi fram drjúgum hluta af löngunum sínum til að færa eignir til í landinu, en stjórnmálamenn með ríkar langanir í slíka átt, eru ákaflega ógeðfelld fyrirbrigði.

Á Íslandi giltu lög sem hétu því tilgerðarlausa nafni „lög um tekju- og eignaskatt“. Þegar loks náðist fram það markmið að hætta að gera eignir fólks upptækar í áföngum, það er að segja að leggja á sérstakan eignaskatt, var nafni laganna eðlilega breytt og hétu þau eftir það „lög um tekjuskatt“. Samfylkingin er í raun skattaflokkur, og svo rammt kveður að því að í atkvæðagreiðslu studdi flokkurinn ekki einu sinni nafnbreytinguna, eftir að búið var að afnema eignaskattinn. Og nú er Samfylkingin komin til valda, með jafnvel enn vinstrisinnaðri flokk með sér, og þá er auðvitað hlaupið til og eignaskattur endurvakinn.

En eignaskatturinn er að vísu ekki nefndur því nafni að þessu sinni. Inn í tekjuskattslögin var bætt ákvæði um sérstakan „auðlegðarskatt“, sem leggjast skal á allar eignir sem metnar séu yfir tiltekinni fjárhæð, og er sérstaklega tekið fram í lögum að ekki skipti máli „hvort eignirnar gefa af sér arð eða ekki“. Gömul kona sem erfir dýra fasteign en á lítið lausafé skal árlega greiða ríkissjóð 1,25% af því verðmæti sem er yfir lágmarkinu. Menn geta svo velt fyrir sér hvort líklegra sé að lágmarkið lækki eða hækki á næstu misserum.

Ofan á þetta bætist svo að gert er aðgengilegt hvaða upphæð hver og einn Íslendingur greiðir í þennan „auðlegðarskatt“ , svo blöð og tímarit, sem gefin eru út í þeirri von að eigendurnir verði auðugir, geta reynt að reikna, með venjulegri íslenskri fjölmiðlanákvæmni hvaða eignir hver og einn eigi, og birta það svo í fréttatímum, rétt eins og einhvern varði um það hvaða eignir náunginn kann að eiga. Þetta þykir auðvitað sjálfsagt á þeim tímum þar sem einkamálefni eiga að vera „uppi á borðum“ en allt sem stjórnvöld gera er hjúpað spuna, rykmekki og oft hreinu falsi.

Nú finnst eflaust einhverjum sem nauðsynlegt sé að afla aukinna skatta og sanngjarnt sé að „breiðustu bökin“ beri þyngstu byrðarnar. En þegar verið er að skattleggja eignir, sem engan arð gefa af sér, þá er einfaldlega verið að gera eignir fólks upptækar í áföngum. Með tímanum má svo auðvitað allt eins búast við því að „eignagólfið“ verði lækkað eða skatthlutfallið hækkað, svo lengi sem ekki tekst að hrinda vinstristjórn af landsmönnum. En jafnvel þótt „auðlegðarskattinum“ verði haldið óbreyttum, þá er um að ræða eignaupptaka sem fer fram alveg án tillits til þess hvort skattgreiðandinn á nokkurt lausafé til að greiða réttlætismönnunum í ríkisstjórninni. Slík skattheimta er óvenjulega ósanngjörn.

Og svo er það lýsandi fyrir núverandi ríkisstjórn að velja skattinum heiti eins og „auðlegðarskattur“. Af hverju má skatturinn ekki heita eignaskattur, eins og hann hafði heitað? Af hverju er verið að setja pólitískar upphrópanir inn í skattalögin? Kemur kannski næst „Skattur á ljóta og feita kalla, sem eiga pening sem við viljum fá“? Eða „Skattur á gráðuga liðið, til að afla fjár sem við með Réttlætiskenndina megum útdeila“?