Í bókum eftir Ludwig von Mises á borð við Human Action, The Theory of Money and Credit og The Austrian Theory of the Trade Cycle and Other Essays má finna kenningar um að á meðan ríkið annist seðlaprentun og stýri vöxtum muni verða til hinar ýmsu verðbólur sem allar springi með vondum áhrifum á hag fyrirtækja og heimila. .
Þetta má til að mynda finna í veigamesta verki Mises, Human Action sem kom út árið 1949. Þar er því lýst hvernig ríkisvaldið linar allar þrautir sína fram að næstu kosningum með seðlaprentun (bls. 793):
Aukning peningamagns í umferð er stærsta bareflið sem stjórnvöld nota á frjálsan markað. Seðlaprentunin er töfrasprotinn sem dregur úr skorti á framleiðsluvörum, lækkar vexti eða lætur þá verða að engu, fjármagnar íburðarmikil opinber verkefni, losar fjármagnseigendur við fjármagn, veitir fyrirheit um eilífa uppsveiflu og gerir hag allra svo miklu betri. |
Eins og Vefþjóðviljinn hefur kannski áður sagt hafa fáir gagnrýnt seðlaprentunarvald og samtryggingu ríkis og fjármálafyrirtækja af meira kappi en Ludwig von Mises og austurrísku hagfræðingarnir. Þeir gerðu það fyrir Kreppuna miklu og þeir gerðu það með sömu rökum fyrir hrunið í fjármálakerfi Vesturlanda haustið 2008. Rökin eru alltaf á sömu leið. Seðlaprentun, lágir vextir og ríkisútgjöld örva efnahagslífið ef til vill tímabundið en eru skammgóður vermir. Fyrr en síðar kemur engu að síður í ljós að fjárfestingar eru byggðar á fölskum forsendum. Hið ódýra fjármagn, niðursettir vextir og ríkisútgjöld, hafa afvegaleitt fyrirtæki og heimili. Bólan springur og fyrirtæki og heimili fara í þrot. Svona varð kreppan mikla til og sömuleiðis hin alþjóðlega fjármálakreppa fyrir tveimur árum. Það næsta sem gerist er að brennuvargarnir bjóðast til að gerast slökkviliðsmenn. Ríkisútgjöld eru aukin og vextir lækkaðir niður í núll til að til að koma hjólum atvinnulífsins að stað á ný. Þar með eru lögð drög að næstu bólu. Út úr þessum vítahring virðist erfitt brjótast.
Jafnvel þótt ríki séu á barmi gjaldþrots koma önnur ríki þeim til aðstoðar með lánsfé í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svo ekki þurfi að laga ríkisútgjöld að veruleikanum.