V efþjóðviljinn stingur upp á því við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra samkeppniseftirlitsins. að hann bjóði sig fram til þings. Ekki af því að blaðið hyggist styðja hann með ráðum og dáð, heldur gæti hann hugsanlega komist til þeirra valda sem hann augljóslega vill, valdanna til að setja reglur í landinu.
Í viðtali við Ríkissjónvarpið átaldi Páll Gunnar landbúnaðarráðherra harðlega fyrir að fara ekki að þeim tilmælum sem Páll Gunnar og hans menn hefðu sett fram um aukna samkeppni í mjólkuriðnaði. „Það er auðvitað mjög alvarlegt ef stjórnvöld fara í engu að tilmælum okkar“, sagði embættismaðurinn Páll Gunnar í viðtalinu, og virtist greinilega telja sig og sína menn eiga að ráða lögum og reglum í mjólkuriðnaði.
Nú þarf ekki að hafa mörg orð um skoðanir Vefþjóðviljans á frjálsum viðskiptum, en lesendur fara vafalaust nærri um þær. En hvort sem menn eru sammála Páli Gunnari Pálssyni eða ekki, um það hvaða reglur eiga að gilda um viðskipti með mjólkurvörur, þá ættu þeir að vera sammála um að það sé ekki hans hlutverk að setja þær reglur. Embættismaður sem í embættisnafni telur mjög alvarlegt mál ef lýðræðislega kjörin stjórnvöld setja ekki þær reglur sem embættismaðurinn vill að gildi, er kominn út fyrir hlutverk sitt. Ef Páll Gunnar telur það skyldu ráðherra að leggja fram frumvarp sem næði vilja Páls Gunnars fram, þá telur hann líklega skyldu alþingismanna að greiða slíku frumvarpi atkvæði sitt, og mjög alvarlegt ef þeir gerðu það ekki.
Þessi þróun verður sífellt algengari. Dómarar Hæstaréttar eiga að ákveða hvaða vexti má semja um af lánum, og þingmenn sem þó samþykktu vaxtalögin bíða spenntir eftir niðurstöðunni. Ákvarðanir um byggingar, vegi og önnur mannvirki, eiga sífellt meira undir ákvörðun einhverra nafnlausra manna á skipulagsstofnunum, manna sem enginn hefur kosið.
Það verður að berjast gegn þessari þróun. Hið opinbera á að sjálfsögðu að skipta sér af eins litlu og mögulegt er. En þær ákvarðanir sem hið opinbera þó tekur, þær eiga kjörnir fulltrúar að taka í eigin nafni og á eigin ábyrgð.