F yrir tveimur árum sögðu Ungverjar sig sveitar á svipaðan hátt og Íslendingar. Þeir þáðu 20 milljarða dala skuldahlekki frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. En nú er kominn til valda maður að nafni Viktor Orban og hann hefur lýst því yfir að vilji endurheimta efnahagslegt sjálfstæði Ungverjalands. Fyrsta skrefið að hans mati er að vinda ofan af alþjóðastofnanavæðingunni; losna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið.
The Wall Street Journal spyr í leiðara í dag hvort ungverski forsætisráðherrann sé snillingur eða flón og leiðir líkur að því að hann sé einhvers konar blanda. Orban stefnir að því eins og hann sagði fyrir kosningar að taka upp 16% flatan tekjuskatt á einstaklinga. Og blaðið segir að hann hafi meiri áhuga á því að hagur Ungverja vænkist með vexti og viðgangi efnahagslífsins en að þeir sötri skuldasúpuna frá AGS og ESB.
The Wall Street Journal segir að það sé vart annað hægt en að taka undir þessar hugmyndir Orbans. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi um áratuga skeið stýrt löndum í strand og stöðnun. Og þrátt fyrir að Orban hafi skellt á nefið á kerfiskörlunum og AGS og ESB hafa fjármálamarkaðir hvergi látið sér bregða. Ungversk ríkisskuldabréf hafi til að mynda selst betur en vænst var í síðustu viku.
Blaðið bendir hins vegar á að Orban sé ekki alveg samkvæmur sjálfum sér því þótt hann ætli sér bæði að lækka tekjuskatt einstaklinga og fyrirtækja hafi hann lagt á sérstakan bankaskatt sem sé ekki vænlegt í landi sem þarfnist erlends fjármagns.