Þriðjudagur 3. ágúst 2010

215. tbl. 14. árg.

Í þjóðmálaumræðunni verður þess oft vart, að ýmsir láta sig lítið varða um lög og rétt, ef hagsmunir eða skoðanir krefjast. Þá virðist mörgum standa algerlega á sama um réttarríkið, og virðast raunar skilja lítt hvað í því felst eða hvert mikilvægi þess er. Þó er það svo, að réttarríkið er undirstaða bæði friðsamrar sambúðar borgaranna og þess að efnahagslíf geti gengið, hvað þá efnahagslegar framfarir orðið.

Margir hafa mikla skömm á innheimtumönnum. Lögmenn, sem sinna innheimtu, þykja blóðsugur. Fjárnám, vörslusvipting, uppboð, gjaldþrot, þykja af sama toga, og mikill þrýstingur er á löggjafann að draga sem mest úr þýðingu slíkra hluta, helst nema með öllu úr gildi.

En hvernig færi í landi þar sem eignarréttur er ekki virtur, skuldir fást ekki greiddar og samningar halda ekki?

Hver myndi ráða sig í vinnu, ef hann hefði engar lögmætar leiðir til að ná umsömdum launum út úr vinnuveitandanum? Hver myndi ráða annan mann í vinnu ef hann mætti ekki binda endi á vinnusambandið? Hver gæti eignast húsnæði fyrir sig og sína, ef hann gæti ekki tekið lán? Hver myndi lána húskaupandanum peninga, ef hann gæti ekki innheimt skuldina? Ef veð yrðu gerð verðlaus, ef skuldir yrðu þurrkaðar út, ef gjaldþrot yrði þýðingarlaust, hver myndi þá lána peninga? Hver myndi leggja fé í banka, ef hann gæti ekki stefnt bankanum og knúið hann til greiðslu, ef hann fengi ekki innstæðuna til baka? Hver myndi kaupa sér nokkurn hlut, sem ekki væri ætlaður til tafarlausrar neyslu, ef eignarréttur hans á hlutnum nyti engrar verndar? Ef enginn myndi kaupa slíkan hlut, hver gæti þá framfleytt sér með því að framleiða hann? Hver myndi borga öðrum fyrir að vinna fyrir sig hugverk, til áframsölu, ef einkaréttur til birtingar er ekki varinn og hver sem er má taka hugverkið og birta hjá sér, án greiðslu?

Svona má áfram telja. Auðvitað má segja að þessar spurningar og svörin við þeim liggi í augum uppi. En þrátt fyrir að þetta ætti að vera hverjum skynsömum manni augljóst, þá er réttarríkið og eignarréttur undir stöðugum árásum. Margir virðast vilja fá að velja sjálfir þau lög sem þeir fylgi. Aðrir virðast engan greinarmun gera á þeim lögum, sem raunverulega eru í gildi, og þeim reglum sem þeir vildu að giltu. Sumir láta svo eins og atburðir eins og þrot viðskiptabankanna hafi breytt einhverjum lagareglum, að eftir bankaþrotið sé eitthvað heimilt, sem ekki hafi verið það áður, eða óheimilt sem hafi áður verið heimilt.

Gegn öllu þessu er nauðsynlegt að sporna. Það er stórhættuleg þróun þegar grafið er undan réttarríkinu. Eignarréttur og réttarríki eru nauðsynleg undirstaða efnahagslegra framfara og sæmilega friðsamlegrar sambúðar ólíkra einstaklinga.