Í slenska ríkið hefur á undanförnum tveimur tekið þátt í að endurreisa eða bjarga fjölmörgum fjármálafyrirtækjum; bönkum, verðbréfafyrirtækjum og sparisjóðum. Að hverju tilefni hefur það jafnan verið haft á orði að ríkið muni fá peningana sem það leggur í fyrirtækin til baka þótt í flestum tilfellum sé það augljóslega af og frá. Ó já, fjármálafyrirtæki fara umvörpum á hausinn og þá telur ríkið sig auðvitað fá þá peninga til baka sem það leggur í slík félög.
Nú er það hins vegar undir dómstólum komið hvort þrír fyrstu bankarnir sem ríkið endurreisti eftir fjármálakrísuna 2008 verði fyrir svakalegu áfalli, svo miklu að hluthafar þyrftu að leggja þeim til aukið fé. Það eru vart liðin tvö ár frá því ríkið endurreisti þessa banka og vel hugsanlegt að peningarnir sem áttu að skila sér til baka muni draga dilk á eftir sér. Það verður þá í þriðja sinn á sautján árum sem ríkið kemur Landsbankanum aftur á lappirnar.
Hvað ætli þurfi eiginlega til að menn hætti að líta á það sem náttúrulögmál að bankar séu öruggir? Kannski væri fyrsta skrefið í þá átt að ríkið hætti afskiptum sínum af svonefndum innlánstryggingum. Þeir sem vilja tryggja peningana sína í banka geta bara keypt sér slíka tryggingu sjálfir. Það gera húseigendur til að mynda. Þeir tryggja bæði kofann sinn og búslóðina ef þeim sýnist svo. Hvaða dekur er þetta við innlánseigendur? Hvers vegna eru þeir af öllum mönnum með öryggisnet ríkisins?
En þetta mega stjórnvöld ekki heyra á minnst. Þótt ríkissjóður Íslands sé upp á alþjóðlega neyðaraðstoð kominn hefur verið í gildi yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um að allar innistæður í bönkum séu með ábyrgð skattgreiðenda, jafnvel þótt ljóst sé að ríkissjóður hafi ekki bolmagn til að standa við þau stóru orð. Og ríkið ætlar jafnframt að stofa nýjan galtóman tryggingasjóð innstæðueigenda í þeirri viðleitni að telja fólki trú um að innstæður séu öruggar á hverju sem dynur.
Það vekur sérstaka athygli að ríkisstjórn sem leggur sérstakan auðlegðarskatt á þá sem eiga til að mynda miklar innstæður í bönkum skuli á sama tíma tryggja þær í bak og fyrir á reikning skattgreiðenda. Ætli auðlegðarskatturinn myndi duga til að kaupa tryggingu fyrir þær sömu innstæður sem verið er að skattleggja? Eða eru innstæðueigendur – auðlegðarfólkið – að fá hærri ríkisstyrk en nemur skattinum?