Í byrjun júní mælti sjónvarpsmaðurinn Glenn Beck með Leiðinni til ánauðar eftir Friedrich von Hayek við áhorfendur sína. Stuttu síðar hafði Hayek velt Stieg Larsson – eða öllu heldur sænsku feðgunum sem hafa tekjur af bókum hans – úr efsta sæti sölulistans á Amazon. Á nokkrum vikum seldust yfir 100 þúsund eintök en allt árið 2008 aðeins 7 þúsund stykki.
En þótt Beck hafi mikil áhrif með sjónvarpsþáttum sínum má geta þess að bókin seldist í 29 þúsund eintökum á síðasta ári svo að þegar var farið að gæta aukins áhuga.
Bók Hayeks hefur stundum verið sögð hafa verið reiðarslag fyrir sósíalismann. Og víst er að hún er góð málsvörn fyrir frjálsan markað og hörð ádeila á miðstýringu framleiðslunnar. Hugmyndin um þjóðnýtingu framleiðslugreina var öðrum þræði hugmynd um að ná arðinum af framleiðslunni til ríkisins sem myndi dreifa honum af sanngirni og réttlæti um þjóðfélagið. Leiðin til ánauðar átti tvímælalaust sinn þátt í að menn sáu þversagnirnar í því að miðstýra framleiðslunni á þennan hátt. Þekkingin er dreifð út á meðal borgaranna og vonlaust að safna henni allri saman á skrifstofur ríkisins.
Hvers vegna selst bókin þá svo grimmt nú? Varla eru hugmyndir um að þjóðnýta hagnað fyrirtækja gengnar aftur? Nei ekki beinlínis, nú standa stjórnmálamenn víða um lönd sveittir við að þjóðnýta tap fyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtækja. Tapinu er svo dreift út á meðal almennings. Björgunaraðgerðir þessar heita auðvitað allar fallegum nöfnum eins og björgunarpakki, innlánstryggingar, innspýting fjármagns, viðbrögð við lausafjárskorti og þar fram eftir götunum. Allt er þetta sagt gert fyrir almenning, alveg eins og þjóðnýting arðsins átti að vera.