V efþjóðviljinn spyr og ekki í fyrsta sinn: Hvað var það í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem átti þátt í bankahruninu? Ef marka má umræðuna undanfarið virðast menn halda að tengsl séu milli þess að nokkrir bankar eyddu meira en þeir öfluðu og stjórnarskrárinnar. Því megi ekki nokkur hlutur tefja „endurskoðun“ stjórnarskrárinnar.
Það er bara ekkert sem bendir til að stjórnarskráin hafi átt þátt í bankahruninu eða varði það á nokkur hátt. Nema síður sé.
Ekki lagði stjórnarskráin til Íbúðalánasjóð sem blés upp fasteignabóluna hér á landi. Ekki mælti stjórnarskráin fyrir um lága stýrivexti stærstu seðlabanka heims eða háa vexti íslenska seðlabankans. Ekki mælti stjórnarskráin fyrir um mörg þúsund lög og reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja sem reyndust svo verri en ekki. Ekki mælti stjórnarskráin fyrir um gríðarlegt opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum sem skapaði falskt öryggi fyrir sparifjáreigendur og hluthafa. Ekki mælti stjórnarskráin fyrir um stofnun tryggingasjóðs innstæðueigenda sem var enn eitt villuljósið í boði hins opinbera á fjármálamörkuðum. Ekki mælti stjórnarskráin fyrir um þau ríkisútgjöld sem eru að sliga þjóðina um þessar mundir vegna þeirrar skuldsetningar sem þau valda.
Allt voru þetta verk þeirra sem hugsa á sama hátt og þeir sem ætla sér nú að endurskoða stjórnarskránna.