Þ egar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út, fyrir rúmlega mánuði, voru viðbrögð fréttamanna, álitsgjafa og stjórnmálamanna, merkilega fyrirsjáanleg. Skýrslan kom í mörgum bindum, á þúsundum blaðsíðna, og hluti af henni er um 500 blaðsíður af andmælum, þótt af einhverjum ástæðum hafi verið horfið frá því að prenta þau með. En þrátt fyrir þennan gríðarlega umfangsmikla texta, sem bæði geymir ýtarlegar upplýsingar um flókna hluti og alls kyns persónulegar skoðanir nefndarmanna á álitamálum, þá áttu fréttamenn, álitsgjafar og stjórnmálamenn ekki í neinum erfiðleikum með að meta skýrsluna á leifturhraða.
Sama dag og skýrslan kom út gátu álitsgjafar, bloggarar og stjórnmálamenn því hreyknir lýst yfir því, að svo ótrúlegt sem það væri, þá staðfesti skýrslan allt sem þeir hefðu sagt. Bætti hugsanlega heldur í.
Ríkissjónvarpið efndi til langs fréttaskýringaþáttar um skýrsluna, sama kvöld og hún kom út. Sá þáttur varð vitaskuld ákaflega hjákátlegur og greinilega byggður upp eftir því sem fordómar einstakra fréttamanna höfðu sannfært þá um að skýrslan yrði. Aukaatriði fengu aðalsess þáttarins en aðalatriði hurfu í skuggann. Nefndarmenn sátu fyrir svörum hjá þáttastjórnendum sem lítið sem ekkert höfðu getað lesið í skýrslunni og allar spurningar voru eftir því. Svo lánlausir voru stjórnendur þáttarins að þegar þeir fengu spurningar upp í hendurnar í miðjum þætti, þá tókst þeim ekki að skilja neitt.
Sem dæmi má nefna, að Jónas Fr. Jónsson greindi frá því í þættinum að á fundi hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, á útrásartímanum, hefði umboðsmaður Alþingis haldið tölu og hvatt fjármálafyrirtækin eindregið til að vera óspör að kvarta til umboðsmanns ef Fjármálaeftirlitið gengi hart fram gegn fyrirtækjunum. Eftir að Jónas hafði sagt frá þessu, héldu stjórnendurnir áfram að tala við rannsóknarnefndarmennina, sem meðal annars gagnrýna Fjármálaeftirlitið harðlega fyrir linkind, en datt ekki í hug að spyrja rannsóknarnefndarmanninn Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, um þetta forvitnilega atriði.
Opinber umræða um skýrsluna hefur dregið dám af þessu upphafi. Aukaatriði eru gerð að aðalatriðum, og öfugt. Gagnrýni á skýrsluna fæst ekki rædd. Fyrst slá fjölmiðlamenn föstu að niðurstaða skýrslunnar hafi bara víst verið eins og þeir höfðu ímyndað sér að hún yrði. Síðan er látið nægja að vísa óljóst í skýrsluna, með stóru essi, og látið eins og þar hafi nú allur málflutningur þeirra sannast í eitt skipti fyrir öll. Fáir hafa auðvitað lagt á sig að lesa allar þessar þúsundir blaðsíðna og enn færri hafa haldið þræði allan tímann. Þess vegna skapast á endanum einhver þjóðtrú um það hvað sé í skýrslunni sagt, og hvað ekki.
Þeir sem vilja fá skýra mynd af aðalatriðum skýrslunnar hafa hins vegar nú fengið þarflegt hjálpargagn. Í síðustu viku kom út ákaflega aðgengileg bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra, um skýrsluna, þar sem hann fer á 160 blaðsíðum yfir aðalatriði skýrslunnar. Styrmir fer yfir það, hvað skýrsluhöfundar segja um ólíka aðila og stofnanir, og fer ekki hjá því að menn sjái aðra mynd en þá sem óðamála bloggarar og reiðir fréttamenn hafa reynt að draga upp. Í bók Styrmis fá bankarnir sérstakan kafla, útrásarvíkingar annan, fjármálaeftirlitið einn, ríkisstjórn og seðlabanki, Icesave-„skuldbindingarnar“ og efnahagsstjórnin, fá sinn kaflann hvert.
Sumir hafa eflaust skilið fréttir af skýrslunni svo, að rannsóknarnefndin gagnrýni harðlega efnahagsstjórn áratuganna fyrir bankahrun. Sú mynd er ekki rétt. Skýrsluhöfundar segjast þvert á móti lýsa „framfaraskrefum sem stigin voru á undanförnum áratugum og eiga þátt í stórbættum lífskjörum almennings á Íslandi“. Þeir fagna ábyrgri fiskveiðistjórnun, útbreiddri verðtryggingu lánsfjár, og nefna sérstaklega með ánægju að „vaxtafrelsi, markaðsvæðing og brotthvarf hins opinbera úr atvinnurekstri, opnun hagkerfisins og afnám viðskiptahafta“ hafi átt mikinn þátt í stórbættum lífskjörum Íslendinga. Hefur einhver heyrt fréttamenn, álitsgjafa og stjórnmálamenn vitna mikið í þessi orð nefndarmanna?
Styrmir bendir í bókinni réttilega á, að það sé „ekki mikill samhljómur í lýsingum rannsóknarnefndar Alþingis á þeim árangri, sem náðst hefur á Íslandi með þeirri stefnu í efnahags- og atvinnumálum, sem fylgt hefur verið, og gagnrýni ýmissa vinstrimanna þess efnis að allt, sem farið hefur á verri veg sé svonefndri nýfrjálshyggju að kenna.“ Hann segir að rannsóknarnefndin „sé þannig að því er virðist sammála þeirri grundvallarstefnu, sem hér hefur verið fylgt, gagnrýnir hún einstaka þætti í efnahagsstjórninni og þá sérstaklega frá árinu 2004.“ Vitnar Styrmir svo til nefndarinnar sem gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki skorið opinber útgjöld niður á þenslutímum.
Þannig mætti taka mýmörg dæmi um skakka mynd sem fólki hefur verið gefin af niðurstöðum nefndarmanna, og bók Styrmis er mikilvægt hjálpargagn þeirra sem vilja átta sig á aðalatriðum skýrslunnar.
Annað mikilvægt atriði skýrslunnar, sem rakið er að nokkru leyti í bók Styrmis, er umfjöllun höfunda um svokallaðar „skuldbindingar Íslands“ vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Þeir sem lesa þá umfjöllun, og taka mark á nefndarmönnum, láta sér ekki til hugar koma að til séu nokkrar „skuldbindingar“ Íslands til „endurgreiðslu“ Icesave-skulda Landsbankans. Þeim finnst þvert á móti sem enn alvarlegra sé en áður að ráðherrar og flestir stjórnarþingmenn hafi tvívegis barið gegnum alþingi lög þess efnis, að Ísland taki á sig stórkostlegar skuldir sem ekki hvíla á því. Aumingjagangur formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem allt frá áramótum hafa reynt sitt besta til að aðstoða ríkisstjórnina við þetta verk, verður enn sérkennilegri í ljósi skýrslunnar.
Bók Styrmis er geysilega fróðleg yfirferð um skýrsluna, og í raun nauðsynleg eftir hina skökku mynd sem fjölmiðlar og álitsgjafar hafa gefið. Styrmir ber mikið lof á skýrsluna, þótt hann sé ekki blindur á vankanta hennar, sem eru vissulega töluverðir. Þá fær vinnuhópur um siðferði, sem skilaði undarlegu hliðarverki við skýrsluna, stutta umfjöllun og stendur ekki glæsilegar eftir en áður. Styrmi þykir mjög margt í skýrslunni vera mjög vel gert og rökfast, en stundum detti skýrsluhöfundar hins vegar niður í bjúrókratískar meinlokur, skriffinnskusjónarmið sem engan veginn eigi við þegar mikið er í húfi í raunveruleikanum:
Fyrstu viðbrögð mín eftir lestu þessa kafla Skýrslunnar, þar sem ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um yfirtöku Glitnis er að finna og ofangreindar tilvitnanir eru teknar út, voru þessi: Hafa þeir, sem þennan texta skrifuðu, aldrei dýft hendi í kalt vatn? Fjármálakerfi landsins stendur í ljósum logum síðustu helgina í september 2008 og rannsóknarnefnd Alþingis hefur hugann að verulegu leyti við það, hvort allra formsatriða hafi verið gætt! Hvort þetta skjal hafi verið áritað með réttum hætti eða kallað eftir öðru skjali úr því að Glitnismenn voguðu sér að tala við Seðlabankann án þess að leggja fram skjöl. Það má vel vera, að í háskólasamfélaginu geti menn leyft sér svona nákvæm vinnubrögð skriffinna en í stjórnmálum og atvinnulífi koma þær stundir að það er ekki hægt. Það verður að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja, og það verður að gera strax. Þetta er ekki trúverðug gagnrýni. |
Styrmir nefnir ýmis fleiri dæmi. Eitt þeirra er gagnrýni nefndarmanna á Geir H. Haarde fyrir að hafa farið að þeirri ósk Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, að Össur Skarphéðinsson en ekki Björgvin G. Sigurðsson kæmi að Glitnismálinu. Rannsóknarnefndin segir að Geir hafi átt að virða þessa ósk Ingibjargar Sólrúnar að vettugi. Styrmir segir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir liggur á sjúkrabeði í New York og óskar eftir því við Geir H. Haarde að hann kalli Össur Skarphéðinsson til fundar í Seðlabankanum en ekki Björgvin G. Sigurðsson. Að auki er Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, á staðnum en sagður þar vera í öðru hlutverki sínu, sem efnahagsráðgjafi utanríkisráðherra. Hvernig dettur rannsóknarnefnd Alþingis í hug að gera þá kröfu til forsætisráðherra við þessar aðstæður að hann gangi þvert á vilja formanns samstarfsflokksins í ríkisstjórn? Enn eru einhver skriffinnskusjónarmið á ferð, sem taka ekkert mið af veruleikanum í mannlífinu sjálfu. |
Hér tæpir Styrmir á einn af helstu göllum skýrslunnar. Stundum taka skriffinnskusjónarmiðin gersamlega völdin og raunveruleikinn hverfur sjónum. Úr verður stundum fjarstæðukennd gagnrýni eða jafnvel ásakanir um vanrækslu, sem eru einfaldlega byggðar á því að hálfu öðru ári eftir að atburðir urðu, dettur rannsóknarnefndarmönnum í hug að kannski hefði mátt að gera þetta eða hitt, sem engin lagaskylda var til og ekkert bendir til að hefði neinu breytt. Skrifa minnisblað, halda fundargerð, kalla eftir skjali, kanna þetta eða hitt. En við slíkum galla á skýrslunni mátti auðvitað búast og hann breytir ekki því að margt er stórfróðlegt í skýrslunni og hún hafsjór af upplýsingum sem mjög gagnlegt getur verið að safnað hafi verið saman.
Miklu skiptir að menn fái sanngjarna mynd af aðalatriðum skýrslunnar. Þar stóðu fréttamenn, stjórnmálamenn og álitsgjafar sig eins og búast mátti við. Þótt Vefþjóðviljinn sé ekki sammála Styrmi Gunnarssyni um alla hluti í bókinni, þá er bók hans ákaflega skýrt og skynsamlegt hjálpargagn þeim sem vill átta sig á raunverulegum aðalatriðum málsins.
Styrmir hefur sagt frá því að hann hafi lesið skýrsluna á sjö dögum og skrifað bókina á öðrum sjö. Það finnst eflaust einhverjum lítill tími til hvors um sig, og það má til sann vegar færa. En þá má hafa í huga að fréttamenn, stjórnmálamenn og álitsgjafar tóku sér sumir aðeins nokkrar mínútur til sömu hluta. Og nefndarmenn sjálfir virðast telja það eðlilegt. Þeir héldu blaðamannafund og svöruðu fyrirspurnum þegar enginn hafði lesið skýrsluna nema þeir, og gáfu kost á sjónvarpsviðtölum sama kvöld. Þeir segjast svo aldrei ætla að ræða hana framar.