E in stærsta bólan á árunum 2005 til 2008 var húsnæðisbólan. Margir sem keyptu íbúð á þessum tíma, ekki síst á síðari hluta hans, sitja nú uppi með húsnæði sem er veðsett langt umfram markaðsvirði. Verð- og gengistryggð lán hafa snarhækkað undanfarin tvö ár á meðan húsnæðisverð hefur lækkað um 50% að raunvirði.
Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður getið þá beitti Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sér fyrir auknum útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs á árinu 2008 en þá var loftið að byrja að leka út blöðrunni. Viðskiptablaðið sagði frá því í vikunni hvaða áhrif þessi aðgerð Jóhönnu hafði:
Stjórnvöld gripu til ýmissa ráða til að bregðast við verðfalli á fasteignum á sumarmánuðum 2008, þegar allir bankarnir þrír, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, voru því sem næst hættir að lána til íbúðakaupa. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, beitti sér fyrir því sérstaklega að Íbúðalánasjóður (ÍLS) hefur víðtækari heimildir til útlána.
Í fréttatilkynningu sem félagsmálaráðuneytið sendi frá sér 20. júní 2008 kom fram að breytingar um auknar heimildir Íbúðalánasjóðs til útlána ættu að geta glætt lífi í markaðinn. Hámarkslán íbúðalánasjóðs voru hækkuð úr 18 milljónum í 20. Þá var brunabótamat, sem viðmið, afnumið og þess í stað miðað við allt að 80% af kaupverði eigna. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins vegna þessara breytinga segir: „Þessi breyting miðar ekki síst að því að auðvelda fólki kaup á minni eignum, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem brunabótamat er oft á tíðum um 50% af markaðsvirði eigna og því erfitt að fjármagna kaup á litlum íbúðum með lánum frá Íbúðalánasjóði.“
Samkvæmt tölum sem Viðskiptablaðið óskaði eftir frá ÍLS höfðu breytingarnar mikil áhrif. Samtals voru 2.843 lán veitt frá júní og fram í október 2008, þegar bankarnir hrundu og markaðurinn nánast botnfraus og verðfall varð mikið. Þrjá mánuði þar á undan voru aftur á móti veitt 1.600 lán. Útlánum sjóðsins fjölgaði því umtalsvert skömmu fyrir hrun bankanna, eftir að heimildir Íbúðalánasjóðs voru útvíkkaðar.
Það er því ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir lokkaði stóran hóp manna til kaupa á fasteignum rétt áður en fasteignabólan sprakk. Hún sat í ríkisstjórn sem hafði fengið margvíslegar ábendingar um að brugðið gæti til beggja vona í efnahagslífi landsmanna innan tíðar.
Hvað ætli þeim sem bitu á agn Jóhönnu skömmu fyrir bankahrunið þyki um að eftir hrun hafi hún verið hækkuð í tign og gerð að formanni Samfylkingarinnar og forsætisráðherra?