M arga langar óskaplega til þess að hrun stóru bankanna þriggja hafi verið eilífðaróvininum, „frjálshyggjunni“, að kenna. Þeir sem það vilja, hömruðu lengi vel á því að hér hefðu engar opinberar reglur gilt, heldur allt verið eitt frumskógarlögmál. Sumir hafa látið eins og þeir trúi því að hér hafi farið fram allsherjar „frjálshyggjutilraun“, sem hafi mistekist svo gjörsamlega að ekki þurfi frekar að ræða um þann ófögnuð. Nú sé komið að reglugerðarsinnum að spreyta sig. Meðal þeirra sem hátt hafa talað um frjálshyggjutilraunina er hinn virti fræðimaður og Rúv-viðmælandi Stefán Ólafsson, sem undanfarinn áratug hafði haldið jafnlangar ræður um að hér hefði verið stórfelld skattpíning.
Nú hafa flestir orðið að viðurkenna að í landinu giltu, þvert á það sem gapað hafði verið, ákaflega umfangsmiklar reglur um stórt og smátt í viðskiptalífinu. Og þeir sem enn trúa því ekki, ættu þá að spyrja sig hvaða reglur það séu, sem þessir tugir Kaupþingsmanna eru nú grunaðir um að hafa brotið.
Raunar er merkilegt hversu margir þeirra, sem telja að hér hafi engar reglur gilt, eru jafnframt ákafir í þeim kröfum að bankamenn verði sóttir til saka og dæmdir í fangelsi fyrir brot á reglunum sem giltu ekki og lyklunum svo hent.
Fram hefur komið að hér voru innleiddar evrópskar reglur á fjármálamarkaði og giltu hér sambærilegar reglur við það sem var í nágrannalöndum, í samræmi við þá alþjóðlegu samninga sem Ísland hefur gert. Sú staðreynd hefur gert ýmsum gramt í geði, jafnt þeim sem vilja endilega koma Íslandi í Evrópusambandið, og ætluðu að nota regluleysið í hinu frumstæða Íslandi sem röksemd, sem og þeim vildu geta fundið sem mest að stjórnvöldum liðinna ára.
Þessari staðreynd hefur eftir bankahrun verið mætt með nýrri mótbáru: Íslendingar breyttu ekki þeim reglum, sem þeir innleiddu, með hliðsjón af íslenskum aðstæðum. „Það hefði verið hægt að fá aðlögun“, var ein eftirhruns-töfrasetningin.
Tveir menn hafa einkum haldið þessu fram opinberlega. Tryggvi Gunnarsson rannsóknarnefndarmaður alþingis og Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins í leiðara, þar sem hann óvænt bar blak af Evrópusambandsreglum.
Kannast einhver við að þessir tveir menn hafi, fyrir bankahrun, lagt til „aðlögun“ að Evrópureglunun?
Svo skemmtilega vill raunar til að allan útrásartímann bjó íslenska stjórnkerfið svo vel að í landinu starfaði algerlega sjálfstætt embætti sem hafði meðal annars þá skyldu að láta vita ef meinbugir væru á gildandi lögum. Í 11. gr. laga nr. 85/1987 um umboðsmann Alþingis segir: „Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.“ Sami embættismaður hafði það hlutverk að líta eftir stjórnsýslunni og hafði nær algerlega ótakmarkaðar heimildir til þess eftirlitshlutverks.
En hvað með fyrsta formann Evrópusamtakanna, núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, sem árin fyrir bankahrun var ritstjóri Morgunblaðsins, ritstjóri 24 stunda , ritstjóri Blaðsins og aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins? Varla nokkur landsmaður hafði eins góða aðstöðu til að kynna sjónarmið sín og hann. Lagði hann ekki örugglega til ótal aðlaganir á Evróputilskipunum, öll þessi ár?
Og stjórnarandstaðan fyrir bankahrunið? Hvað lagði hún til margar lagabreytingar um aðlögun Evróputilskipanna, sem hefðu komið í veg fyrir þrot bankanna, sem voru felldar á Alþingi?
O g þá hefur Vefþjóðviljinn ekki fleira að segja í dag.