Miðvikudagur 7. apríl 2010

97. tbl. 14. árg.

I nnrás Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu, Danmerkur og fleiri ríkja inn í Írak Saddams Husseins er regluleg kveikja réttlátra reiðikasta íslenskra vinstrimanna. Sumir þeirra halda jafnvel að Ísland hafi ráðist inn í Írak og þeirri trú fylgir undantekningarlítið önnur, enn eindregnari, að þessa innrásarþátttöku hafi tveir menn ákveðið upp á sitt eindæmi og landið setið uppi með.

Veturinn og vorið 2003 stóð lengi þrátefli meginþorra ríkja við Saddamsstjórnina í Bagdad, sem ekkert gerði með ítrekaðar samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Einhverju sinni lýstu íslensk stjórnvöld þeirri skoðun, að ef Írakar færu aldrei að alþjóðlegum samþykktum kynni til þess að koma að ekki yrði komist hjá því að hervaldi yrði beitt. Þetta dugði til þess að Bandaríkjamenn töldu Ísland með, þegar þeir sögðu frá því hvaða ríki hefðu lýst stuðningi við að ráðist yrði inn í Írak.

Íslensk stjórnvöld hefðu vissulega getað hlaupið til og lýst andstöðu við innrás þessara gamalgrónu bandamanna sinna, en þau kusu að gera það ekki, svo sem kunnugt er. Stjórnskipulega eru samskipti við erlend ríki í höndum utanríkisráðherra eins, en að sjálfsögðu hefur honum aldrei verið ætlað að bera pólitísku ábyrgðina einn, enda var hann ekki í samstarfi við Samfylkinguna.

En þetta skiptir kannski litlu í þeirri þjóðmálaumræðu þar sem lykilatriði verða oft að aukaatriðum. Og sama mætti segja, jafnvel þó menn vildu halda því fram að aðdragandinn hefði í einhverjum atriðum verið annar en þessi. Í íslenskri fjölmiðlaumræðu um Ísland og innrásina í Írak gleymist iðulega algert lykilatriði, sem er þetta:

Rétt eins og íslensk stjórnvöld hefðu getað hlaupið til og lýst því yfir að Ísland væri á móti innrásinni í Írak og að fréttir um hið gagnstæða væru misskilningur eða rugl, þá hefði Alþingi getað gert það sama. En það gerði þingið ekki. Með því gerði Alþingi afstöðu íslenskra stjórnvalda að sinni. Alþingi hefði ekki þurft annað en einfalda samþykkt og þar með hefði sérstök afstaða Íslands legið fyrir. Vantraust á ráðherra hefði ekki einu sinni þurft að koma til. Þetta gerði Alþingi ekki. Alþingi gerði ekki athugasemd við það hvernig íslensk stjórnvöld stóðu að málum, hvorki við það sem þau sögðu né sögðu ekki. Þar sem að Alþingi sá ekki ástæðu til að lýsa annarri skoðun en heyrst hafði frá íslenskum stjórnvöldum, eða var talin vera afstaða Íslands, samþykkti Alþingi framgöngu stjórnvalda og stöðu málsins fyrir sitt leyti. Það sker vitaskuld ekki úr um það hvort að framgangan hafi verið rétt, en það sýnir hvílík fjarstæða það er, að einhverjir tveir menn hafi sent Ísland í stríð og landið bara setið uppi með það.

Fólk ætti bara að ímynda sér ef utanríkisráðherra Íslands myndi lýsa yfir opinberlega að Ísland styddi sprengjuárásir og aðra baráttu tétsénskra aðskilnaðarsinna í Rússlandi. Væntanlega myndi Alþingi taka í taumana. En ef það gerði það ekki, heldur sæti aðgerðalaust undir slíkum yfirlýsingum ráðherrans, jafnvel í nokkur ár, þá hefðu þingmenn auðvitað, sem þingmenn, samþykkt þær sem afstöðu Íslands. Og breytti engu þó þeir skrifuðu blaðagreinar og töluðu á útifundum og væru þá þveröfugrar skoðunar.