Miðvikudagur 10. mars 2010

69. tbl. 14. árg.

E f taka ætti mark á ýmsum þeim álitsgjöfum og stóryrðamönnum sem tröllríða íslenskri þjóðmálaumræðu þá myndu menn á endanum trúa því að flest hefði verið gert rangt á Íslandi síðustu áratugina, og sjaldnast ekki bara rangt heldur líka af vondum hug. Þykir álitsgjöfum það flest kalla á rannsóknir og úttektir, þó án andmælaréttar. Sanngjarnir menn og fróðari munu hins vegar vita og skilja að ákaflega margt var gert til framfara á síðustu árum og áratugum, hvað svo sem æpt er í bloggum og fjölmiðlum.

Sumt þykir þó jafnvel æstustu mönnum hafa verið í rétta átt. Og hittist þá stundum svo á að það eru einmitt sömu atriði sem þó mættu fremur að minna fólk á að ekki er allt gull sem glóir. Sem dæmi mætti taka stjórnsýslulögin, frá árinu 1993. Þau þóttu nú aldeilis framfaraskref, og auðvitað er gott ef stjórnsýslan er skilvirk og starfar eftir viðurkenndum meginreglum. Stjórnsýslureglur eiga að vera tæki til að auðvelda mönnum að ná réttri niðurstöðu. Stjórnsýslulögin hafa hins vegar öðrum þræði öðlast sjálfstætt líf, þar sem formið tekur öll völd af efninu og menn skeggræða fram og til baka hvort eitthvað megi finna að undirbúningi ákvörðunar, sem kannski enginn efast um að hafi sjálf verið rétt.

Tímaritsins Þjóðmála hefur stundum verið getið í þessu blaði. Meðal efnis í því var um skeið skemmtilegur þáttur, Stjórnarráðssögur, þar sem Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri sagði gamansögur frá nær fjörutíu ára ferli sínum í stjórnsýslunni. Í Stjórnarráðssögum V, rifjaði hann upp árdaga stjórnsýslulaganna.

Árum saman flutti ríkisstjórnin frumvörp til stjórnsýslulaga á Alþingi án þess að þau næðu fram að ganga. Áfram var þó haldið og ekki gefist upp heldur þráast við. Það var á árinu 1992 sem enn einu sinni var lagt fram frumvarp til stjórnsýslulaga. Það var svo samþykkt samhljóða í apríl 1993 sem lög frá Alþingi. Þegar ljóst varð að nú yrði loks gerð alvara úr því að setja okkur almenn stjórnsýslulög, urðu ýmsir til að ókyrrast. Stjórnarráðsstarfsmaður glöggur og athugull vatt sér inn í dóms- og kirkjumálaráðuneytið einn fagran apríldag 1993 og var mikið niðri fyrir:
– Þetta frumvarp, ef að lögum verður, leggur okkur endalausar byrðar á herðar. Og það á ekki bara við hér í stjórnarráðinu heldur út um allar koppagrundir stjórnsýslunnar. Ég skal gefa ykkur dæmi: Biskup Íslands á fyrsta fjórðungi aldarinnar var kvæntur danskri konu og áttu þau saman tvær dætur. Þessar biskupsdætur ólust upp og urðu gjafvaxta, en ekki varð vart við að þær væru við karlmann kenndar og leið svo og beið. Biskupsfrúin varð nokkuð langleit af þessari bið. Dag nokkurn snarast hún inn á kontór biskups og ávarpar hann: „Min kære biskop, nu skal du gifte vores lille Anni. Biskupinn þagði drjúga stund en svo sagði hann: „Det kan ikke lade sig göre, min kære, fordi der skal to til.“
Þetta hljómar kannski sakleysislega, sagði kollegi vor, en ef þetta samtal hefði átt sér stað eftir gildistöku tilvonandi stjórnsýslulaga hefði sá góði biskup mátt þakka fyrir að halda bagli og mítri, vegna þess að í þessu dæmi er hann sem stjórnvald að hafna beiðni um hjónavígslu sem er stjórnvaldsathöfn og höfnunin því stjórnvaldsákvörðun. Þessi stjórnvaldsákvörðun felur í sér brot á nánast öllum helstu meginreglum hinna boðuðu stjórnsýslulaga eins og hér skal greina:
Í fyrsta lagi er biskup vanhæfur til að fara með málið. Hann er skyldur aðila í beinan legg og hann er maki umboðsmanns aðila. Hann brýtur allar greinar annars kafla laganna um sérstakt hæfi þ. á m. að hafa ekki stuðlað að því að settur væri staðgengill í hans stað. Varðandi almennar reglur sem greindar eru í þriðja kafla, þá er ljóst að hann sinnir ekki leiðbeiningarskyldu sinni. Hann brýtur gegn rannsóknarreglunni með grófum hætti, því honum var í lófa lagið að spyrja umboðsmann aðila, af hverju þessi bón væri fram sett og þar með um mögulegan brúðguma. Meðalhófsreglan kemur hér einnig við sögu því t.d. ábending um trúlofun er í þessu tilviki vægara úrræði en alger höfnun giftingar. Þá má velta fyrir sér hvort málshraðareglan hafi ekki verið brotin í öfuga átt, þ.e. ákvörðun tekin of fljótt og gassalega. Það lítur sem sagt út fyrir að eina reglan í þessum kafla frumvarpsins sem ekki hefur verið brotin í þessu máli sé jafnræðisreglan. Það er þó vafamál vegna þess að málshefjandi var kona. Karl hefði hugsanlega fengið annað svar.

Þó hér sé auðvitað gamansaga sögð, og með vænum útúrsnúningi að því er sumum finnst eflaust, þá er í henni áríðandi sannleikskjarni. Af og til heyrist æpt að ekki hafi verið fylgt stjórnsýslulögum við úrlausn einhvers máls og þá halda margir að tekin hafi verið alvitlaus ákvörðun. En þá er iðulega um einhvern álíka „ágalla“ á málinu að ræða, eins og lýst er í sögunni af biskupshjónunum: Hárrétt ákvörðun var tekin, en með nægum vilja til útúrsnúnings má finna einhverja grein stjórnsýslulaganna sem ekki hafi verið fylgt í þaula. Og þá eru lögin hætt að vera hjálpartæki og orðin að fótakefli. Þar er þó ekki við lögin að sakast heldur fremur þá sem fengið hafa þau á heilann.

Eins og menn vita hafa útgjöld hins opinbera aukist á gríðarhraða á síðustu árum. Sífellt er komið upp nýjum opinberum stofnunum, með auknum verkefnum, rýmri heimildum, fleira starfsfólki og samfelldum verkefnisstjórum og vinnuhópum. En einu sinni fóru menn betur með peninga hjá hinu opinbera. Í Stjórnarráðssögum III segir svo:

Fram til ársins 1939 voru ráðuneytin öll í gamla stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu. Á fyrstu hæð til hægri handar við aðalinnganginn var dóms-, kirkju-, og kennslumálaráðuneytið löngum til húsa í tveimur herbergjum. Í innra herberginu var aðsetur skrifstofustjórans, en í fremra herberginu var jafnan fjöldi starfsmanna. Á meðal þeirra starfsmanna sem þar höfðu vinnuaðstöðu var Inga Magnúsdóttir skjalaþýðandi. Skrifborð hennar var önnur gluggakistan í herberginu og hafði hún verið breikkuð með hefluðu borði.
Á gjaldkeradögum Þórðar Jenssonar cand. phil. sem var bróðursonur Jóns Sigurðssonar forseta fór Inga eða fröken Inga eins og hún var jafnan nefnd, fram á að fá litla bókahillu á vegginn hjá sér, því þröngt var í gluggakistunni. Þórður harðneitaði þessari bón og komst Inga ekkert áleiðis með erindi sitt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hún notaði því tækifærið þegar Þórður Jensson var í leyfi og fékk skrifstofustjórann til að fallast á hillusmíðina. Þegar Þórður kom úr leyfinu og sá hvað orðið var, stóð hann lengi þögull fyrir framan hilluna en sagði svo að lokum: Þér eigið einhvern tíma eftir að verða ríkissjóði dýrar, fröken Inga.