„En með því að segja að vígstaðan hafi breyst, ertu þá ekki í leiðinni að segja að hún hafi batnað og var þá ekki bara ágætt að forsetinn skyldi vísa þessum lögum þangað sem þau fóru, í þjóðaratkvæðagreiðsluna sem verður á morgun? Var það þá ekki bara til góðs, getur þú sagt annað?“
„Nú er það því miður þannig að við erum nú ekki búnir að ná þessum samningum en við skulum vona að það takist.“ |
– Helgi Seljan og Steingrímur J. Sigfússon ræða saman í Kastljósi Ríkissjónvarpsins, föstudaginn 5. mars 2010. |
A f einhverjum ástæðum hafa fréttamenn gert lítið með yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar í Kastljósi síðasta föstudagskvöld, en að sjálfsögðu bauð Ríkissjónvarpið upp á langt einkaviðtal við fjármálaráðherra kvöldið áður en atkvæðagreiðsla fór fram um lög sem hann hafði átt frumkvæði að.
Þau vinnubrögð Ríkisstjórnarútvarpsins koma ekki á óvart. Það sem fremur kemur á óvart er fréttaleysið af ummælum Steingríms. Hann fullyrti til dæmis í viðtalinu, oftar en einu sinni, að það væri ekkert fast í hendi í hinum nýju viðræðum við Breta og Hollendinga. Komið væri fram eitthvað sem Steingrímur kallar „tilboð“, en er greinilega ekki meira tilboð en svo að hann er ekki „búinn að landa því“ og ekki öruggt að það takist.
Í árslok taldi ríkisstjórnin lífsnauðsyn að Icesave-ánauðin yrði samþykkt. Þegar ríkisstjórnin sá fram á að bíða ósigur í atkvæðagreiðslunni vildi hún ekki leggja sjálfa sig að veði og því var talað eins og áramótalögin væru „í raun úrelt“. En svo kom í ljós, kvöldið fyrir kosningar, að í raun var ekkert í hendi. Því er ljóst, að hafi lögin í raun verið nauðsynleg um áramótin þá voru þau það enn á laugardaginn.
En af því að ríkisstjórnin tekur jafnan sjálfa sig fram yfir hag landsins, þá lagði hún ekki í að berjast fyrir lögunum, þó þau hafi greinilega ekki verið orðin úrelt síðasta laugardag.
Aðeins ríkisstjórn sem telur sig geta treyst á gagnrýnisleysi „fréttamanna“ myndi standa þannig að málum. Í öðrum löndum hefði fjármálaráðherra verið spurður hvers vegna hann gerði ekki annað hvort, berðist fyrir samþykkt laganna sem hann sagði skömmu áður vera algjörlega nauðsynleg, eða legði til á Alþingi að þau yrðu felld úr gildi.
Svarið blasir við. Ríkisstjórnin vildi halda lögunum í gildi. En hún mátti heldur ekki til þess hugsa að tapa þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þess vegna var farin sú fráleita leið sem var farin, í trausti þess að fréttamenn færu mildum höndum um ráðherrana.
E n einn kostur er við hinar skýru yfirlýsingar fjármálaráðherra, fyrir kosninguna, um að enginn nýr samningur væri í höfn. Vegna þeirra blasir við að fólk hafnaði ekki lögunum vegna þess að betri samningur byðist. Fólk hafnaði einfaldlega lögunum. Og skyldi engan undra.