Laugardagur 6. mars 2010

65. tbl. 14. árg.

E ins og lesendur þessa rits vita, velkist Vefþjóðviljinn ekki vafa um það augljósa atriði, að á Íslandi hvílir nákvæmlega engin skylda til að ábyrgjast eina einustu krónu, pund eða evru, sem var á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Sömu sögu segja flestallir sérfræðingar sem um málið fjalla, og sama afstaða er raunar tekin í Icesave-lögunum sjálfum. En jafnvel þó menn væru ekki þessarar skoðunar, þá blasir við öllum mönnum að þeir, sem setja hag Íslands og íslenskra skattgreiðenda í fyrirrúm, hljóta að óska þess að sem flestir mæti á kjörstað í dag og segi nei.

Jafnvel þeir, sem telja að semja beri við Breta og Hollendinga um endurgreiðslur þess sem þau ríki greiddu ótilkvödd vegna Icesave-reikninganna, hljóta að sjá að þeir samningar sem Íslandi munu þá bjóðast, hljóta að verða því betri sem niðurstaðan er meira afgerandi í dag. Ef kosningaþátttaka er mikil og afgerandi meirihluti hafnar Icesave-lögunum, þá sjá Bretar og Hollendingar að þeir verða að bjóða virkilega vel, svo von sé til að samningar náist við Íslendinga. Ef þátttaka verður lítil og úrslit ekki afgerandi, þá sjá þeir á hinn bóginn að þeir þurfa lítið að bæta boð sín.

Þess vegna blasir við, að allir sem hugsa um hagsmuni Íslands og íslenskra skattgreiðenda, mæta á kjörstað í dag og sýna þá afstöðu í verki.

Þeir sem hins vegar básúna að kosningin „breyti engu“ og að þeir ætli að „sitja heima“, gera ekki annað en að veikja stöðu Íslands en styrkja vígstöðu Breta og Hollendinga. Þess vegna kemur svo sem ekki á óvart að þeir tveir ráðherrar, sem allt frá upphafi valdatíðar sinnar hafa talað fyrir kröfum Breta og Hollendinga , en ekki íslenskum hagsmunum, geri það líka nú. En það er alveg með ólíkindum ef heilvita fólk áttar sig ekki á þeirri afstöðu sem raunverulega skín í gegn hjá þessum ráðherrum tveimur.

Ef að lögin verða á annað borð felld, er þá einhver sem ímyndar sér að það sé betra fyrir samningsstöðu Íslands að það verði gert með fáum atkvæðum en mörgum

Ráðherrarnir tveir ætla ekki að mæta á kjörstað og segja já við sínum eigin lögum. Þeir reyna ekki lengur að verja þau. En samt reyna þeir að draga sem mest úr áhrifamætti þess er kjósendur nema þau úr gildi. Hvernig er hægt að halda því fram, að heimaseta styrki stöðu Íslands? Í raun kemur aðeins tvennt til greina: Annað hvort telja menn gildandi Icesave-lög nauðsynleg og þá mæta þeir og segja já. Hinn kosturinn er að hafna þeim með eins afgerandi hætti og kostur er, svo sú niðurstaða nýtist sem best og sendi sem sterkust skilaboð til annarra ríkja. Það er algerlega óframbærilegt að sitja heima eða skila auðu. Þeir sem það gera, geta að minnsta kosti ekki látið eins og þeir beri umhyggju fyrir hagsmunum Íslands og íslenskra skattgreiðenda. Þeir hafa látið persónulega biturð og flokkshagsmuni ganga fyrir.