Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar í gangi. Ég held að ég geti fullvissað háttvirtan þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi. |
– Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svarar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á alþingi 3. júní 2009. |
T veimur dögum eftir að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fullyrti á alþingi að samningaviðræður um Icesave væru ekki hafnar, lauk þeim með undirritun hinna fyrstu Icesave-samninga. Þriðja júní fullyrti fjármálaráðherra við alþingi að einungis væru í gangi „könnunarþreifingar“. Tveimur dögum síðar nennti formaður samninganefndar íslenska ríksins ekki að hafa málið lengur hangandi yfir sér og undirritaði samninga. Menn geta velt fyrir sér hversu sannsögull fjármálaráðherra var í þinginu þriðja júní, en það gerir auðvitað enginn, enda íslenskir fjölmiðlamenn einstakir.
Þetta svar Steingríms J. Sigfússonar á alþingi, tveimur dögum áður en samið var um Icesave í fyrsta sinn, er rifjað upp í hinni fróðlegu bók, Þeirra eigin orð, eftir Óla Björn Kárason. Þar eru rifjuð upp ótal ummæli fólks fyrir og eftir útrásartímann, sem margir vildu eflaust gleyma. Orð sem fréttamenn hafa yfirleitt mjög lítinn áhuga á að rifja upp. Um Icesave, sem enn er mál málanna, er eitt og annað í bókinni.
Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði í Morgunblaðið 9. júní í fyrra að ríkisstjórn hefði sannfærst um ekki yrði lengra komist í samningum um Icesave „án harkalegra árekstra við alþjóðasamfélagið“. Sama Jóhanna nennir ekki á kjörstað á morgun, í fyrstu allsherjaratkvæðagreiðslu lýðveldissögunnar, því að hún segir að nú sé á borðinu „miklu betra tilboð“ frá Bretum og Hollendingum.
Í júlí 2009 fullyrti Jóhanna á alþingi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði engar hótanir uppi vegna Icesave og gerðu engar „kröfur um að við gengjum frá Icesave-samningunum fyrst.“ Þegar Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar strandaði hvað eftir annað í þinginu var því hins vegar marghaldið að þingmönnum og landsmönnum að allt samstarf við sjóðinn ylti á „lausn málsins“.
Í ágúst 2009 sagðist Jóhanna á alþingi telja að það væri „alveg skýrt og klárt að norrænu lánin eru ekki tengd Icesave-samningnum að neinu leyti öðru en því að norrænu lánin eru liður í þeirri áætlun sem við höfum gert með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er ekkert annað sem þar býr að baki að mínu viti.“ Þegar Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar strandaði hvað eftir annað í þinginu var því hins vegar marghaldið að þingmönnum og landsmönnum að norræn lán yltu á samþykkt málsins.
Þetta rifja fréttamenn sjaldan upp. Ráðherrar halda áfram að gapa í hljóðnemana og ætlast til að vera trúað sem nýju neti. Nú er fólki sagt að það þurfi ekki að mæta á kjörstað á morgun, því gildandi lög um málið séu í raun úrelt. Samt leggja ráðherrarnir ekki til að lögin verði felld úr gildi, hvort sem væri með nýjum lögum, eða því að fólk fjölmennti einfaldlega á morgun og gerði það sjálft. Enn er til fólk sem trúir jafnan nýjustu Icesave-fullyrðingum núverandi ráðamanna. En því fólki fer ört fækkandi.
Á morgun mætir fólk á kjörstað og gerir það sem ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið ófáanlegir til að gera: Fellir úr gildi Icesave-lög ríkisstjórnarinnar.
Eftir helgi panta menn sér Þeirra eigin orð og rifja upp fleiri spakleg orð ráðherra, þingmanna og útrásarvíkinga – að ógleymdum forseta Íslands.