Í vikunni var upplýst að Seðlabanki Evrópu lánaði íslensku bönkunum gríðarlegt fé á árunum fyrir hrun þeirra. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í gær var um að ræða 880 milljarða króna á núverandi gengi. Allt fram á sumar 2008 gátu dótturfélög íslensku bankanna nýtt sér slík lán í góðri trú en þurftu þá að endurgreiða þau að einhverju leyti. Þá gerði Seðlabanki Evrópu svonefnt veðkall á bankana í byrjun október sem hann féll svo frá, eftir því sem Ingimundur Friðriksson fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands upplýsti í erindi. Það spurðist hins vegar út og hafði vond áhrif á vonda stöðu bankanna.
Auk seðlabanka Evrópu lánuðu að minnsta kosti seðlabankar Íslands og Svíþjóðar íslensku bönkunum fé.
Vefþjóðviljinn verður að biðjast forláts á því að hann skilur ekki hvar frjálshyggja kemur við sögu í þessu samkrulli ríkisstofnana og einkafyrirtækja. Þessi ástarbréfaviðskipti einkabanka við seðlabanka vítt og breitt um Evrópu eru miklu fremur einhvers konar “þriðja leið” eða “miðjumoð” þar sem einkarekstri og ríkisafskiptum er hrært saman þannig að enginn veit hvar ábyrgðin liggur. Skattgreiðendur fá hins vegar alltaf reikninginn þegar illa fer.