Föstudagur 12. febrúar 2010

43. tbl. 14. árg.

S ilja Bára Ómarsdóttir, einn hinna valinkunnu sérfræðinga sem ríkisfjölmiðlarnir fá hvað eftir annað til að fræða áhorfendur um stjórnmál, taldi að gagnrýni á atkvæðasmölun Sóleyjar Tómasdóttur í forvali vinstrigrænna, og þátt vinnubrögð Silju Báru sjálfrar við hana, ekki byggða á virðingarverðum sjónarmiðum heldur gremju með að miðaldra karlmaður hefði tapað fyrir róttækum femínista.

Hvernig ætli menn létu ef málin hefðu snúið á hinn veginn? Ef stuðningsmenn Þorleifs Gunnlaugssonar hefðu farið hús úr húsi með kjörgögn, látið menn kjósa, og skilað inn atkvæðunum, en stuðningsmenn Sóleyjar hefðu látið allt slíkt ógert, og það vegna upplýsinga sem þeir hefðu fengið frá kjörstjórn prófkjörsins, þó með óformlegum hætti hefði verið. Síðan þegar þeir hefðu gert við þetta margháttaðar athugasemdir þá hefði stuðningsmönnum Sóleyjar verið svarað með því að þær væru bara gramar vegna þess að lítt þekktur miðaldra iðnaðarmaður hefði sigrað unga konu sem alþekkt væri eftir að hafa verið fastagestur í fjölmiðlum árum saman.

Sá stuðningsmaður Þorleifs sem afgreitt hefði athugasemdar Sóleyjar svo, hversu eftirsóknarverður álitsgjafi hefði hann þótt framvegis?

Raunar eru litlar líkur á að ríkisfjölmiðlarnir minnki framboðið á Silju Báru Ómarsdóttur í fréttatímum vegna þessa. Ekki hafa þeir dregið úr framboðinu á Gunnari Helga Kristinssyni þó hann telji ýmsa stjórnmálamenn vera í einhverri „skrímsladeild“ í Sjálfstæðisflokknum. Árum saman hafa fréttamenn boðið upp á Baldur Þórhallsson sem óháðan sérfræðing um Evrópumál og finnst alltaf jafn merkilegt þegar hann segir að Ísland myndi hafa gríðarleg áhrif innan Evrópusambandsins og ætti að ganga þangað inn strax. Ekki minnkaði áhugi fréttamanna á hlutlausum skýringum Svans Kristjánssonar eftir að hann upplýsti að hann hugleiddi að gefa kost á sér til formennsku í Samfylkingunni. Fyrir fréttamönnum eru allir þessir menn bara prófessorar í stjórnmálafræði og þeir eru allir hlutlausir fræðimenn, nema auðvitað Hannes Hólmsteinn sem er hlutdrægur, frjálshyggjumaður og ber ábyrgð á bankaþrotinu, svartadauða og síðari heimsstyrjöldinni.

Og ekki sér ríkisútvarpið neitt athugavert við það að menn stýri umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi, um sömu mál og þeir hafa áður tjáð sig um með miklum stóryrðum á öðrum vettvangi.

Þannig að menn ættu ekki að þurfa að sakna Silju Báru lengi úr fréttunum.