Í slensk stjórnvöld munu síðasta vor hafa þrýst á stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi um að ganga til samninga um Icesave-málið. Þó voru það Bretar og Hollendingar sem töldu sig eiga að fá endurgreitt frá Íslendingum – það sem þeir tóku sjálfir ákvörðun um að eyða í málið við fall Landsbankans. Það kom meðal annars fram í þingræðu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra 3. júní 2009 að Bretar hefðu dregið lappirnar í málinu:
Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. |
Og það var ekki nóg með að vinstri stjórnin legði allt kapp á að draga Breta og Hollendinga að samningaborðinu heldur þurfi að fá glæsilega niðurstöðu fyrir Ísland á mettíma til að Svavar kæmist í sendiherraorlofið.
Þessi undur frá fyrra ári rifjast upp nú þegar ríkisstjórnin er eins og feiminn unglingspiltur á skólaballi að bera sig óformlega upp við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um hvort mögulega hugsast megi að þær gætu sest við samningaborðið að nýju. Þó eru það Bretar og Hollendingar sem telja sig eiga eitthvað inni hjá íslenskum skattgreiðendum – ekki öfugt.
Því miður hafa allar ríkisstjórnir Íslands frá falli bankanna einungis spurt hvernig og hvenær Íslendingar eigi að greiða hallann af Icesave-viðskiptum Landsbankans en ekki hvort þeim beri að greiða hann.
Allt fram á síðust haust voru stærstu fjölmiðlar landsins, Ríkisútvarpið, Morgunblaðið og Fréttablaðið sammála ríkisstjórninni um að spyrja alls ekki þeirrar grundvallarspurningar hvort ríkissjóði Íslands bæri skylda til að greiða tapið af viðskiptaævintýri þessa einkafyrirtækis erlendis. Ríkisútvarpið og Fréttablaðið eru enn við sama heygarðshornið.