Fimmtudagur 31. desember 2009

365. tbl. 13. árg.

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

E ins og raunar hefur gerst áður, hefur Vefþjóðviljinn tekið saman þau nokkur atriði líðandi árs sem óþarft er að hverfi með því inn í aldanna skaut.

Snemmhlæjarar ársins: Íslenskir knattspyrnuspekingar eru enn og aftur búnir að afskrifa Eið Smára Guðjohnsen.

Viðbúnaður ársins: Íþróttafréttamenn voru á einu máli um að íslensku fótboltastúlkurnar væru „algjörlega tilbúnar“ í Evrópukeppnina.

Ferðaskrifstofa ársins: Knattspyrnusamband Íslands bauð upp á dekurdag.

Umræðuvefur ársins: Sveijan.

Kröfugerðarmenn ársins: Þátttakendur í umræðum á sveijunni kröfðust gagnsæis og að „allt yrði upp á borðum“. Sjálfir skrifa þeir undir dulnefnum.

Nostradamus ársins: Þorvaldur Gylfason sér allt fyrir, skömmu eftir að það gerist.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Ímyndarherferð ársins: Þrettán ára forsetaferill Ólafs Ragnars Grímssonar hefur verið ein allsherjar ímyndarherferð Vigdísar Finnborgadóttur.

Safnari ársins: Guðlaugur Þór Þórðarson.

Styrkþegi ársins: Samfylkingin reyndist hafa fengið sambærilega styrki frá fyrirtækjum útrásarmanna og Sjálfstæðisflokkurinn. Einhverra hluta vegna hafa fréttamenn engan áhuga á því og enn hefur enginn krafið hana um endurgreiðslu.

Áskrifandi ársins: Sveinn Andri Sveinsson ehf.

Flutningsmaður ársins: Atli Gíslason tók sér frí á þingi þegar Icesave-ánauðin var samþykkt. Hann sagðist standa í flutningum. Hver ætli verði dómsmálaráðherra á nýju ári?

Grís ársins: Það er nú augljóst. Og þó.

Neró ársins: Á meðan þáttastjórnendur og fréttastjórar Ríkisútvarpsins brenna trúverðugleika þess situr Páll Magnússon á efstu hæðinni og ræskir sig á lútu. Glæsilega klæddur.

Skrauthvörf ársins: Fréttamenn gættu þess að nefna skemmdarvarga aldrei annað en „mótmælendur“.

Undantekning ársins: Stöð 2 gerði eina undantekningu og taldi að ótíndir glæpamenn og skemmdarvargar hefðu verið á ferð. Þá hafði kapall í eigu Stöðvar 2 skemmst. Áður hafði bara verið ráðist á alþingishúsið, dómkirkjuna, einkaheimili og ýmsar opinberar stofnanir, svo nú var í fyrsta sinn alvörumál á ferð.

Samningamaður ársins: Heilög Eva Joly sagðist í kastljósviðtali hafa gert samning við íslensku þjóðina. Ekki þótti ástæða til að spyrja hvernig það hefði farið fram.

Manngleggni ársins: Hörður Torfason hélt ræðu fyrir utan seðlabankann og sagðist vita að bankastjóranir væru allir landráðamenn. Síðar í ræðunni kom í ljós að hann vissi fullt nafn eins þeirra, hafði óljósan grun um skírnarnafn annars en vissi ekkert hver hinn þriðji væri.

Reykbomba ársins: Hörður Torfason sagði að „við“ hlustuðum ekki á „pólitískar reykbombur“, þegar Geir H. Haarde sagði frá því að hann hefði greinst með krabbamein.

Útrásarvíkingur ársins: Baldur Guðlaugsson.

Varðmaður ársins: Páll Magnússon stendur vörð um hlutleysi Ríkisútvarpsins.

Afmæli ársins: Ellert Schram varð sjötugur. Af því tilefni skrifaði Ellert Schram afmælisgrein um afmælisbarnið.

Máltæki ársins: Sigmundur Ernir verður ekki kenndur þar sem hann ekki kemur.

Synjunarhvetjendur ársins: Nýir starfsmenn Ríkisútvarpsins, Gordon Brown og Andrés Önd, kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-ánauðina.

Valdafrákosning ársins: Bálreiður Steingrímur J. Sigfússon sagði fréttamanni Ríkissjónvarpsins að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið „kosinn frá völdum“ og ætti ekki að ybba gogg vegna Icesave-frumvarpi Steingríms. Fréttamaðurinn sá ekki ástæðu til að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn fékk fleiri atkvæði og fleiri þingmenn en vinstrigrænir.

Viðvörun ársins: Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur sagðist á opnum borgarafundi hafa „fengið skilaboð frá ónefndum ráðherra“ að hún ætti að tala varlega á fundinum. Allir töldu að þar ætti hún við Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og leiðrétti Sigurbjörg það ekki. Síðar kom í ljós að ráðherrann var í raun persónuleg vinkona Sigurbjargar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Ok ársins: Sigmundur Ernir Rúnarsson kvaðst loksins vera frjáls undan oki auðmanna þegar hann var látinn fara frá Stöð 2. Á meðan hann starfaði þar taldi hann ekki að áhorfendum kæmi við að hann og aðrir væru þar undir oki auðmanna.

Samhengi ársins: Financial Times Deutschland hafði eftir Ólafi Ragnari Grímssyni að ekki kæmi til mála að þýskir sparifjáreigendur fengju bætt tap sitt af Edge-reikningum Kaupþings. Ólafur Ragnar sagði eftir á að því miður hefði verið haft rangt eftir sér.

Birting ársins: Dorrit Moussaieff kvaðst í viðtali við Condé Nast Portfolio lengi hafa varað við að fjármálakerfið myndi hrynja en hins vegar myndi enginn maður missa húsnæði sitt vegna efnahagsástandsins. Fram kom að eiginmaður hennar hefði viljað halda þessum og fleiri ummælum hennar utan viðtalsins, en hún hefði sérstaklega hringt til blaðamannsins og sagt honum að hann mætti birta það allt saman.

Klukka ársins:
Einar Bárðarson útvarpsstjóri. Hann þorir þó að stjórna eigin útvarpi, sem er meira en margir aðrir geta sagt.

Orðuveiting ársins: Fréttir bárust af því að sendiherra Bandaríkjanna hefði verið kallaður að til forseta Íslands til að fá fálkaorðuna. Að fengnu leyfi í Washington hefði hún mætt prúðbúin að Bessastöðum. Á leiðinni þangað hefði verið hringt í hana og henni sagt að hún væri ekki verð þess að fá orðuna. Hins vegar mætti hún koma og heilsa Ólafi Ragnari, sem væri mikill heiður. Spunamenn Samfylkingarinnar hneykslast jafnan mjög á smámunaseminni þegar einhver vill ræða þetta mál.

Fræðimaður ársins: Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor og sérstakur álitsgjafi ríkisfjölmiðlanna, var spurður um tiltekinn ummæli Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, og sagði þau hafa verið sögð til að friða „skrímsladeild“ í flokknum.

Blikk ársins: Silfur Egils.

Lækning ársins: Þegar fyrra Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt greiddi Þráinn Bertelsson atkvæði gegn því, og sagði frumvarpið vera lækningu sem væri verri en sjúkdómurinn.

Póstsamgöngur ársins: Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði Gordon Brown bréf 28. ágúst um sjónarmið Íslands í Icesave-málinu. Þann 13. nóvember svaraði Brown loksins og sagði svo sem ekki neitt. Íslenskum stjórnvöldum datt ekki í hug að fresta samningaviðræðum við Breta á meðan forsætisráðherra Íslands væri ekki virtur svars.

Mannasiðakennsla ársins: Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði á þingi að samþykkja ætti Icesave-frumvarpið, meðal annars til að kenna „börnunum okkar“ mannasiði.

Tímapressa ársins: Um miðjan desember hafði Ríkisútvarpið eftir Steingrími J. Sigfússyni að klára yrði Icesave-málið „fyrir jól“.

Skjalfesting ársins: Þegar Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir fyrra Icesave-frumvarpi sínu, sagði hann að það lægi fyrir, „rækilega skjalfest“ að samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lán þaðan strönduðu, ef Icesave-málinu yrði ekki lokið.

Skilyrðisleysi ársins: Dominiqe Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skýrði frá því, skriflega á heimasíðu sjóðsins, að það hefði aldrei verið skilyrði af hálfu sjóðsins að Icesave-málinu lyki, með nokkrum sérstökum hætti.

Stuðningsmaður ársins: Woulter Bos, fjármálaráðherra Hollands, lýsti því yfir að innlánstryggingakerfinu væri ekki ætlað að bregðast við kerfishruni, eins og því sem varð á Íslandi. Voru kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum þó einmitt byggðar á að svo væri. Íslenskir fjölmiðlar höfðu mismikinn áhuga á þessum tíðindum. Viðskiptablaðið sagði frá þeim 21. ágúst en Ríkisútvarpið frétti af málinu í lok nóvember. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar engan áhuga á þessu, frekar en öðru sem styður málstað Íslands.

Misheyrn ársins: Kjósendum heyrðist sem vinstriflokkarnir ætluðu að reisa skjaldborg um heimilin. Eftir kosningar kom í ljós að þeir höfðu í raun ætlað að reisa gjaldborg um þau.

Auglýsingastofa ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins kynnti hvern einasta „mótmælafund“ mjög vandlega í nokkra daga fyrirfram, sendi út ræður og ræddi við aðstandendur, án þess að ná einni einustu gagnrýnu spurningu mánuðum saman. Þegar fundargestum var beint að seðlabanka Íslands sendi fréttastofan Þórdísi Arnljótsdóttur til þeirra daglega, og bar hún fram sama heildarfjölda gagnrýnna spurninga.

Óðinsvé ársins: Undir stjórn Óðins Jónssonar, og á ábyrgð Páls Magnússonar, hefur svonefndri fréttastofu Ríkisútvarpsins verið beitt með áður óþekktum hætti undanfarin misseri.

Austurlandsferð ársins: Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra fór austur á land til að kynna sér áhrif virkjana og stóriðju á atvinnulíf. Heimamenn töluðu við hana tæpitungulaust um andstöðu vinstrigrænna við hvorttveggja. Fréttamenn nefndu það ekki orði, en sýndu langar myndir af Kolbrúnu að klappa hreindýrskálfi sem tekinn hafði verið í fóstur á bóndabæ.

Ómerkingur ársins: Frambjóðendur, kjörnir fulltrúar og aðrir trúnaðarmenn vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar skrifuðu honum opið bréf og sögðu hann vera „ómerking“ vegna kúvendingar sinnar í Evrópumálum. Þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins frétti af málinu var það haft sjöunda frétt kvöldsins, afgreidd á tuttuguogfjórum sekúndum.

Lungnabólga ársins: Því miður sköpuðust biðraðir fyrir utan yfirfulla ráðstefnuhöllina í Kaupmannahöfn þar sem broddborgarar komu saman til að ræða hlýnun jarðar. Mikið kuldakast gekk þá yfir alla Vesturálfu og áttu umhverfisfréttamenn vonda dvöl í röðinni, í frosti og stórhríð.

Snjókoma ársins: Í desember fóru samgöngur úr skorðum víðast hvar í Evrópu og Bandaríkjunum vegna fannfergis. Mest varð úrkoman í Danmörku, 47 cm jafnfallinn snjór á einum degi, daginn sem ráðstefnan um hlýnun jarðar stóð þar sem hæst.

Leiðtogafræði ársins: Stjórnsýslufræði.

Olympos ársins: Barack Obama leit upp úr önnum sínum og skaust til Kaupmannahafnar á fund Alþjóðaólympíunefndarinnar til að tryggja að leikarnir yrðu haldnir í Chicago.

Frankenstein ársins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og þáverandi þingflokkur Framsóknarflokksins gerðu Ólafi Ragnari Grímssyni og félögum kleift að skapa nýja ríkisstjórn.

Hang ársins: Svavar Gestsson nennti ekki að hafa Icesave-málið lengur hangandi yfir sér. Miklu betra að hengja það bara á landsmenn alla.

Grasrót ársins: „Mauraþúfan“ efndi til „þjóðfundar“. Fékk til þess margra milljóna styrk frá ríkinu.

Niðurskurður ársins: Þingmenn kveinka sér undan blóðugum niðurskurði. Áfram er hamast við byggingu tónlistarhússins í Reykjavík og ekki einu sinni leitað eftir fjárveitingum fyrirfram. Bara haldið áfram í trausti þess að enginn segi neitt.

Nefndarmenn ársins: Tveir nefndarmenn í „rannsóknarnefnd alþingis“ töldu að hinn þriðji þyrfti að víkja úr nefndinni vegna opinberra ummæla sinna um væntanleg rannsóknarefni. Eftir reiðilestur bloggara skiptu þeir um skoðun. Það gefur góðar vonir um nefndarstarfið.

Björgunarmenn ársins: Í nafni dýraverndar fór vösk sveit manna upp í vestfirsk fjöll og náði þar í sauðfé sem gengið hafði þar villt kind fram af kind. Sumar kindanna stukku fyrir björg fremur en að þiggja björgunina, hinar voru bundnar niður og fluttar í sláturhús. Ríkisstjórnin hefur gert þennan björgunaranda að sínum og reynt að bjarga þjóðarhag með því að leggja stórauknar álögur og skuldaklyfjar á landsmenn.

Fréttnæmi ársins: Eftir að inngöngubeiðni í Evrópusambandið hafði verið eitt heitasta deilumál sumarsins birti Andríki skoðanakönnun Gallup sem sýndi mikla andstöðu við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og alþingis. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur ekki frétt af könnuninni enn.

Fréttanef ársins: Andríki birti skoðanakönnun Gallup sem sýndi verulega andstöðu við fyrra Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar. Fréttastofa Ríkisútvarpsins frétti ekki af þeirri könnun fyrr en byrjað var að auglýsa niðurstöðuna í blöðunum.

Minnisvarðar ársins: Samfylkingin lagði til að Helga Hóseassyni yrði reistur minnisvarði. Flokkur sem vill heiðra mann sem slettir skyri á Kristján Eldjárn forseta og Sigurbjörn Einarsson biskup, og ber tjöru á stjórnarráðið, mun vafalaust vera framarlega í flokki þegar þeim verður reistur minnisvarði sem létu íslenska ríkið taka á sig Icesaveskuldirnar.

Fjármálaráðherra ársins: Alistair Darling hugsaði fyrst og fremst um hagsmuni síns fólks og sagði ekki koma til greina að ábyrgð á innstæðutryggingum útibúa breskra banka á Mön félli á breska skattgreiðendur.

Sundlaug ársins: Sveitarfélagið Álftanes fór á kaf í eigin sundlaug.

Sökudólgur ársins: Forseti bæjarstjórnar Álftaness fann sökudólg þegar bærinn komst nær í þrot. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefði átt að grípa fyrr inn í.

Bankahrun ársins: Á árinu fóru 140 bandarískir bankar í þrot. Ætli það sé ekki allt eftirlitsstofnunum þar að kenna?

Einkavæðing ársins: Formaður vinstrigrænna færði Íslandsbanka og Arion-banka, áður Kaupþing, í eigu erlendra vogunarsjóða, að því er talið er. Alþingi hefur ekki enn verið spurt álits.

Starfsmaður ársins: Guðbjartur Hannesson.

Tilraunamaður ársins: Stefán Ólafsson prófessor upplýsti að hér hefði farið fram „frjálshyggjutilraun“ sem mun hafa falist í stórfelldum og ábyrgðarlausum skattalækkunum.

Hvarf ársins: Ekkert sást á árinu til Stefáns Ólafssonar prófessors, sem árum saman húðskammaði stjórnvöld fyrir að hafa hækkað skattbyrði fólks með ósvífnum hætti. Árið 2006 sagði hann meira að segja að sú fullyrðing að skattar hefðu almennt verið lækkaðir á síðustu árum væru „líklega með mestu ósannindum íslenskra stjórnmála í marga áratugi.“

Húsbyggjandi ársins: Í tengslum við byggingu tónlistarhúss lætur Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra byggja sérstakt bílastæðahús fyrir 1600 einkabíla. Svona fer þegar græningjar þurfa að skera niður ríkisútgjöld.

Forspá ársins: Erlendur fréttamaður spurði Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra hvort hann teldi bankamenn fá fangelsdóma vegna viðskiptasinna. Orðaskipti þeirra voru þessi samkvæmt upptöku sem birt var: John Rolfe: „And if you were betting, do you think that people will go to jail?“
Gylfi Magnússon: „I would be very surprised if all this was wrapped up without something like that happening.“

Endursögn ársins: Þegar þetta hafði birst sendi Gylfi frá sér yfirlýsingu: „ Ég hef aldrei gengið svo langt að fullyrða eða ýja að því að æðstu stjórnendur íslenskra bankanna fyrir hrun verði fangelsaðir vegna gerða þeirra í aðdraganda hrunsins. Ég vil engu spá um það. Hitt hef ég sagt að ég telji næsta víst að rannsókn á málefnum íslensku bankanna á þessum tíma muni sýna fram á að lög voru brotin í einhverjum tilfellum “

Áhugasemi ársins: Enginn fréttamaður hefur enn sýnt því áhuga að svo virðist sem viðskiptaráðherra landsins hafi sent frá sér vísvitandi ósannindi í opinberri yfirlýsingu.

Afskriftaröð ársins: Fréttir bárust af því að Björgólfsfeðgar hefðu óskað eftir afskrift helmings skuldar sinnar við Kaupþing. Steingrímur J. Sigfússon sagði í viðtali að þetta væri síðasta lán undir sólinni sem ætti að afskrifa. Gylfi Magnússon sagði að sér hefði svelgst á við fréttina.

Varkárni ársins: Fréttir bárust af því að eigendur Haga hefðu óskað eftir verulegum afskriftum skulda sinna við Kaupþing og að fá að halda fyrirtækjunum. Steingrímur J. Sigfússon neitaði að tjá sig um málið þar sem slíkt væri ekki við hæfi.

Segulmagn ársins: Tvær bandarískar blaðakonur voru fangelsaðar í Norður-Kóreu. Bandarísk stjórnvöld sendu Bill Clinton þegar á svæðið og segulmagn hans á vestrænar fréttakonur var meira en norðurkóreskir rimlar þoldu. Hann sogaði þær út og flaug með þær heim.

Áætlunarflug ársins: Ríkisbanki leysti Flugleiðir miskunnarlaust til sín og krafðist þegar hluthafafundar til að taka yfir stjórn félagsins. Næsta sem fréttist af félaginu var að ákveðið hefði verið að taka upp beint áætlunarflug til Brussel.

Kunningi ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins brást hin versta við þegar lagt var lögbann á fréttaflutning hennar af lánabók Kaupþings. Fréttastofan sem vitanlega er mjög á móti kunningjaþjóðfélaginu kallaði til álits á málinu Þorbjörn Broddason og kynnti hann sem prófessor í fjölmiðlafræði, en gleymdi að geta þess að hann er einnig bróðir varafréttastjóra Ríkisútvarpsins, Brodda Broddasonar.

Fjarstæða ársins: Jóhanna Sigurðardóttir var spurð að því á alþingi 9. febrúar hvort skattar yrðu hækkaðir. Og svaraði afdráttarlaust: „En að halda því fram að nú eigi að hækka skatta, kannski á næstu mánuðum eða svo, er fjarstæða. Það er fjarstæða að halda því fram.
Vel má vera að í áætlununum sem við þurfum að gera til næstu fjögurra ára þurfi kannski að fara bæði í niðurskurð og skattahækkanir.“

Viðhorfsbreyting ársins: Þann 28. júlí 1662 skrifaði Árni Oddsson, síðastur íslenskra höfðingja, grátandi undir einveldisskuldbindingu á Kópavogsfundinum. Brynjólfur biskup streittist á móti þar til Bjelke höfuðsmaður benti honum á dönsku herskipin sem lónuðu fyrir utan. Þann 28. júlí 2009 sagði nýr forystumaður Íslendinga, Össur Skarphéðinsson, í Morgunblaðinu að það væri „diplómatískur sigur fyrir okkur Íslendinga“ að ráðherraráð Evrópusambandsins hefði látið svo lítið að samþykkja inngöngubeiðni Íslands.

Umhverfistónlistarmaður ársins: Morgunblaðið sagði frá því að einn forkólfa hljómsveitarinnar Sigur Rósar hefði við annan mann sent frá sér nýja plötu, sem þeir hefðu tekið upp á Hawaii: „Það gerðu þeir í hráfæðiskommúnu, settu upp fartölvur sínar og hljóðbúnað – allt knúið af sólarrafhlöðum, en vinnan fór alla jafna fram í opnu rými, veggjalausu, til að ná sem mestri nálægð við náttúruna.“ Því miður kom ekki fram hvernig þeir hefðu komist frá Íslandi til Hawaii, en líklega fóru þeir á seglskipi og nýttu ferðina þá um leið til hvalaskoðunar.

Sannfæring ársins: Svandís Svavarsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu þegar greidd voru atkvæði um inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Sagði hún sannfæringu sína að Evrópusambandið hefði vonda og síversnandi galla og væri eiginlega hið versta samband. Að því búnu sagði hún já og settist ábúðarmikil á ráðherrabekkinn.

Von ársins: Þegar þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar ákváðu að styðja ekki inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið varð Ríkisútvarpið fyrir vonbrigðum. Þórhallur Gunnarsson spurði þingfréttaritarann Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur: „En segðu mér varðandi Borgarahreyfinguna, af því að það kom á óvart þetta útspil í dag, að þrír þeirra hefðu ákveðið að styðja ekki þessa þingsályktun, en er einhver von eh eða er einhver möguleiki á því öllu heldur að það breytist?“

Ráðgjöf ársins: Bjarni Harðarson ráðlagði öllum andstæðingum Evrópusambandsaðildar að kjósa vinstrigræna, til að tryggja að ekki yrði sótt um aðild. Í árslok hóf hann baráttu fyrir því að Icesave yrði samþykkt.

Fullveldissinni ársins: Árni Þór Sigurðsson alþingismaður sat í stjórn Heimssýnar frá 2007-2009.

Evrópusinni ársins: Árið 2009 varð Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar alþingis og gekk strax í að koma í gegn inngöngubeiðni í Evrópusambandið.

Þakkir ársins: Eftir að alþingi hafði samþykkt Icesave-lögin 30. desember, samkomulag um málsmeðferð hafði verið svikið, forseti þingsins bannað erlendum lögmönnum að senda þingmönnum frekari upplýsingar og þinginu öllu stýrt eftir hagsmunum ríkisstjórnarinnar, kvaddi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sér hljóðs og þakkaði þingforseta sérstaklega fyrir ánægjulegt samstarf.

Tafir ársins: „Það er allt upp í loft út af þessu“ margtuggði sár og svekktur Sigmar Guðmundsson þegar Höskuldur Þórhallsson var fenginn í yfirheyrslu í Kastljósi vegna þeirrar ósvífni hans að vilja sjá frekari gögn í þingnefnd, sem tafði seðlabankastjórafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur um tvo daga.

Forseti ársins: Herdís Þorgeirsdóttir laganemi var kosinn forseti Samtaka evrópskra kvenlögfræðinga.

Lýðveldi ársins: Fagmennirnir á fréttastofu Ríkisútvarpsins láta ekki að sér hæða. En aðrir ættu ekki að láta það stöðva sig. Í júlíbyrjun margtuggðu þeir eftirfarandi fróðleik ofan í hlustendur: „Sjálfboðasveit Ulsters, sem er einn stærsti skæruliðahópur sambandssinna á Norður-Írlandi, segist hafa lagt niður vopn fyrir fullt og allt. Sambandssinnar berjast fyrir því að Norður-Írland verði áfram hluti af breska lýðveldinu.“

Frumvarpsástæða ársins: Jóhanna Sigurðardóttir sagði að alls ekki mætti dragast að afgreiða seðlabankastjórafrumvarp hennar: „Við erum að fá hingað til lands fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, væntanlega á fimmtudaginn. Það verður að vera komin festa í starf bankans til að fulltrúar AGS geti rætt við bankastjóra sem ekki eru á förum úr bankanum, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar.“ Enginn fréttamaður vakti athygli á að samkvæmt frumvarpinu ætti að setja nýjan bankastjóra tímabundið á meðan verið væri að ráða nýjan, svo sendinefndin myndi einmitt hitta bankastjóra sem væri „á förum úr banknum“.

Gleði ársins: Fréttamenn ljómuðu þegar þeir sögðu frá þeirri skemmtilegu staðreynd að forsætisnefnd alþingis væri aðeins skipuð konum.

Reiði ársins: Daginn eftir sögðu alvarlegir fréttamenn frá því að í einhverjum fagnefndum væru kynjahlutföll ekki jöfn, heldur „hallaði“ þar á konur. Þetta töldu þeir lögbrot.

Fylgistap ársins: Varaformaður Sjálfstæðisflokksins fór yfir fylgisþróun Sjálfstæðisflokksins í silfri Egils: „Aðeins að Sjálfstæðisflokknum, það er alltaf talað um 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Á 4 ára fresti þá fórum við út og töluðum við fólkið, þá töluðum við, ræddum við það, þurftum að kynna fyrir hvað við stæðum, 95, 99 er stórsigur. 2003, þá bíðum við, þá gefur á bátinn meðal annars út af fjölmiðlafrumvarpinu, síðan 2007 vinnum við stórsigur, það er ekki þannig við við höfum bara farið út og tekið valdið í 18 ár, ekki talað við kóng né prest.“ Suma langar svo mikið að finna rétta sökudólga að enginn viðstaddra benti á að fjölmiðlafrumvarpið, sem olli fylgistapinu í kosningunum 2003, var lagt fram árið 2004.

Aðhald ársins: Við valdatöku sína boðaði ríkisstjórnin stórfellt aðhald á öllum sviðum. Daginn eftir hélt hún sinn fyrsta fund og var hann haldinn á Akureyri með fríðu föruneyti. Næst hélt Katrín Jakobsdóttir erindi á áríðandi málþingi um tölvuleiki, sem haldið var í Malmö í Svíþjóð.

Fækkun ársins: Steingrímur J. Sigfússon sagði að ráðherrafjöldi væri nú tíu og í landinu væri engin stemmning fyrir því að fjölga þeim. Nær væri að fækka. Nokkrum dögum síðar tók tólf manna vinstristjórn við völdum.

Herkænska ársins: Sjálfstæðisflokkurinn vissi að hann gengi nú í gegnum mjög erfiðar kosningar og að sótt yrði að honum úr öllum áttum, ekki síst með markvissri notkun fjölmiðla. Flokkurinn samdi því við hina flokkana um helmingi lægra auglýsingaþak en síðast, svo hendur sínar yrðu sem bundnastar og varnirnar sem minnstar.

Þjóðaratkvæðagreiðslukrafa ársins: Í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar var aukinn réttur landsmanna til áhrifa eitt mikilvægasta málið. „Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess“, sagði þar. Enda gera engir fréttamenn athugasemdir þegar Þráinn Bertelsson greiðir atkvæði gegn því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um Icesave-málið.

Kæra ársins: Andríki birti auglýsingu með andlitsmynd af Steingrími J. Sigfússyni. Vinstrigrænir kærðu þegar birtingu auglýsingarinnar. Engum fréttamanni fannst það áhugavert eða til marks um tilraun til þöggunar.

Slagorð ársins: Yfirkjörstjórnir létu átölulaust að einn flokkurinn héti á kjörseðli „Borgarahreyfingin – þjóðin á þing“.

Yfirvegun ársins: „Ég lærði það dálítið snemma í stjórnmálum að sumir sem eru mikið á yfirborðinu, þeir reyna að koma svona merkimiða á andstæðinga sína“, sagði yfirvegaður leiðtogi, Steingrímur J. Sigfússon, í löngu sjónvarpsviðtali á Skjá einum í apríl.

Yfirborðsmaður ársins: „Komdu þér í stuttbuxurnar drengur“ kallaði bálreiður fjármálaráðherra fram í fyrir þingmanni sem gagnrýndi yfirvofandi skattahækkanir á alþingi, daginn fyrir hið yfirvegaða viðtal við leiðtogann sem er á móti merkimiðum á fólk.

Klámgerð ársins: Fyrirtækið Poulsen, sem selur meðal annars varahluti, sendi frá sér bækling sem sýndi konu í hjúkrunarkvennabúningi þess albúna að hjúkra bifreið. Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga varð bálreið og sagði að þarna væri verið að „klámgera heila fagstétt, sem er með fjögurra ára háskólanám að baki.“
 

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum öllum velgengni og góðvildar á komandi ári.