Miðvikudagur 30. desember 2009

364. tbl. 13. árg.
„Hinn 14. nóvember náðu viðræðunefnd Íslands, Hollands, Bretlands og (Þýskalands) undir forystu Frakklands samkomulagi um stuttan texta, Agreed guidelines, sem þýtt var umsamin viðmið. Þetta er diplómatískt samkomulag sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.“
– Úr greinargerð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um tilurð svonefndra Brussel-viðmiða haustið 2008.

A f margvíslegri vesöld ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstrigrænna mun ekki síst fara í sögubækurnar hvernig stjórnin reyndi að kenna fyrri ríkisstjórn um Icesave samninginn. Þann samninginn sem hún sjálf og samninganefnd hennar gerði við Breta og Hollendinga um Icesave skuldir Landsbankans nær hálfu ári eftir að fyrri ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum. Sú stjórn var auðvitað ekki burðug og mætti kannski við tækifæri nefna óhreinu vinstristjórnina til aðgreiningar frá hinni hreinu sem nú situr. En eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður Samfylkingar lýsir í greinargerð til Alþingis var það sameiginlegur skilningur ríkisstjórna Íslands, Hollands og Bretlands hinn 14. nóvember 2008 að leitað yrði niðurstöðu með „formlegum samningaviðræðum“. Það var hins vegar núverandi ríkisstjórn sem leiddi þær samningaviðræður til lykta með fullkominni uppgjöf og niðurlægingu fyrir Íslendinga þar sem ríkissjóður er látinn taka á sig skuldbindingar sem engum flaug áður í hug að gætu átt erindi við íslenska skattborgara. Engum.

Í dag hafa ríkisstjórnarflokkarnir frestað fundum Alþingis í 15 til 30 mínútur í senn frá klukkan 10 til 15. Það var glundroði í stjórnarliðinu vegna nýrra upplýsinga um vinnubrögð formanns samninganefndar Íslands. Milli vonar og ótta biðu stjórnarliðar þess hvort órækar sannanir bærust fyrir því að formaðurinn hefðu leynt utanríkisráðherra upplýsingum. Um leið og tækist að stöðva frekara flóð nýrra upplýsinga um það sleifarlag og málið sjálft yrði þingfundi fram haldið.

Það var svo gert klukkan 15. Í þingsalnum og á víð og dreif um þinghúsið voru ráðherrar og þingmenn að blaða í gögnum sem þeir höfðu aldrei séð áður en varða málið á dagskrá. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hver á fætur öðrum óskar eftir að fá að kynna sér þessi gögn áður en umræðu lýkur. Klukkan 17 hafði ekki verið orðið við því.