Við viljum taka þátt í markmiðum Evrópusambandsins og höfum verið í viðræðum við ESB um það. Ég vonast til að þeim samningum ljúki núna alveg á næstu dögum þannig að við verðum þátttakendur í sameiginlegum markmiðum ESB. |
– Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í viðtali við Morgunblaðið 7. desember 2009. |
Í viðtali Morgunblaðsins við umhverfisráðherra á mánudaginn kom fram að Íslendingar ætli ekki að sækja um framlengingu á hinu svonefnda íslenska ákvæði í Kyoto samningnum um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta ákvæði hefur gert Íslendingum mögulegt að nýta orku fallvatna og jarðvarma til iðnaðar sem gefur frá sér gróðurhúsalofttegundir. Líkt og álver gera til að mynda. Íslenska ákvæðið varð til vegna þess að menn gerðu sér þó grein fyrir að það er skárra – frá sjónarmiði þeirra sem hafa áhyggjur af hlýnun andrúmsloftsins – að orka til þessa iðnaðar sé framleidd án útblásturs gróðurhúsalofttegunda með varma jarðar og falli fljóta.
Þess í stað er ætlunin að Ísland fari undir regluverk Evrópusambandsins að þessu leyti. Ef til vill má segja að reynsla Íslendinga af regluverki Evrópusambandsins sé þannig að það hljóti að fara að koma að því að eitthvað af því henti þeim.
Í fréttum kom einnig fram að á annan tug íslenskra stjórnmála- og embættismanna ætlar að sækja loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn. Það er alveg óhætt að segja að íslenska ríkið hefur ekki efni á flakki stjórnmála- og embættismanna af þessu tagi. Það eru ekki til peningar fyrir þessu. Það er næg ástæða til að láta ekki svona eftir sér. Þar við bætist að ríkisstjórnin stefnir að miklum samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi eða um 20 – 30% á næstu árum samkvæmt nýjustu yfirlýsingum. Er fyrsta skrefið í þá átt að smala stórum hópi í þotu til Kaupmannahafnar? Ferðalag þessa hóps frá Íslandi hefur í för með sér útblástur á um sex tonnum af hinni skelfilegu undirstöðu lífs á jörðinni, koltvísýringi.
En þetta er ekki nýjung. Þegar ríkisstjórnin settist að völdum boðaði hún 50 – 75% samdrátt í útblæstri fyrir árið 2050, eins og segir í stefnuyfirlýsingu hennar. Til að heiðra minninguna um þetta stefnumál flaug ríkisstjórnin til Akureyrar með föruneyti til að halda sinn fyrsta fund. Þar fóru þúsund kg af CO2 og annað eins og skattfé út í loftið.
Vefþjóðviljinn telur raunar að ríkisstjórnin sé mjög metnaðarlaus í þessu máli öllu saman. Hvers vegna að lofa aðeins 20% minnkun fyrir árið 2020 eða 50% fyrir árið 2050. Hvers vegna ekki metnaðarfull markmið eins og 99% fyrir árið 2099? Hví ekki? Verða ekki Jóhanna og Steingrímur örugglega enn á þingi?