V efþjóðviljinn hlýddi á viðtal Egils Helgasonar við Roger Boyes höfund bókarinnar Meltdown Iceland í Ríkisstjórnarsjónvarpinu í gær. Egill játti í upphafi viðtalsins hrifningu sína af Boyes og verkum hans. Boyes launaði síðar í viðtalinu með miklu lofi um tiltekið verk Egils.
Allar spurningar Egils til Boyes voru á þessa leið: Nú segir þú mjög réttilega í bókinni þinni að tunglið sé úr bræddum osti, gætirðu vinsamlega haft það aftur yfir fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur.
Þetta var sumsé eitt af þessum sjálfstyrkingarviðtölum Egils. Gætir þú komið í þáttinn minn og rennt stoðum undir bloggið mitt?
Stór hluti viðtalsins var annars sálgreining Boyes á Davíð Oddssyni, uppvexti hans, skólaárum, þeirri valdastöðu sem Davíð þarf að sögn Boyes vera í til að geta starfað sem rithöfundur. Og svo komu auðvitað ræðuhöld um meinta óvild Davíðs í garð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem átti væntanlega að styðja við þá meginkenningu Boyes að Davíð hefði hossað helstu viðskiptajöfrum landsins.
Boyes hafði einnig yfir þá kunnuglegu þulu að dregið hefði verið út eftirliti með fjármálastarfsemi á Íslandi. Hann rökstuddi það ekki frekar en aðrir sem haldið hafa slíku fram. Þegar bankarnir fóru í þrot voru aðeins tæp 9 ár frá því sérstök lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi tóku gildi og um leið var sérstakt Fjármálaeftirlit sett á legg. Á síðustu árum hafa auk þess önnur lög og reglur um fjármálastarfsemi orðið svo umfangsmikil að það má efast um að nokkur maður hafi getað kynnt sér öll ósköpin. Meira og minna eru þessi lög fengin frá Evrópusambandinu.
Síðar í viðtalinu reyndi Boyes að réttlæta að Bretar hefðu nýtt lög gegn hryðjuverkastarfsemi til að frysta eigur Íslendinga í Bretlandi. Það hefði verið gert af praktískum ástæðum, verið fljótlegast og þægilegast, bara varnaraðgerð fyrir Breta, ekki atlaga að Íslendingum. Boyes sagði að það hefði þó engu að síður verið kjánalegt og litið illa út í augum Íslendinga að nota þessi lög.
Kannski þarf bara að skipta um nafn á hryðjuverkalögunum til að menn eins og Boyes verði fullkomlega ánægðir með beitingu þeirra. Kannski ættu slík lög bara að heita lög gegn því sem stjórnvöldum á hverjum tíma dettur í hug að gæti verið þægilegt að taka á.
Þ að er sagt að Íslendingar hafi hvorki haft reglur né eftirlit með fjármálastarfsemi á Íslandi. Því fór sem fór. Það er jafnframt sagt að það hafi verið eftir íslenskum reglum og undir íslensku eftirliti sem bankarnir störfuðu og því beri íslenskum skattgreiðendum að borga allan halla af viðskiptum þeirra.
Hvort er það með leyfi? Var það yfirlýst stefna í orði og verki að hér hefði hið opinbera ekkert eftirlit með fjármálastarfsemi? Hvernig dettur þá nokkrum manni í hug að yfirvöld beri ábyrgð á viðskiptaævintýrum íslensks banka úti í heimi?
En auðvitað voru sama eftirlit og sömu reglur hér og víðast annars staðar. Víðast annars staðar voru bara fleiri skattgreiðendur per banka og hægt að ausa nægu fé úr vösum þeirra til að halda bönkunum gangandi. Hér var það ekki mögulegt. En þar með er ekki sagt að íslensk stjórnvöld eða íslenskir skattgreiðendur beri ábyrgð á öllu því sem íslenskir bankamenn tóku sér fyrir hendur.