Það mál bara fer til forsetans og hann tekur sína ákvörðun. Ég ætla engum skoðunum að lýsa á því með hliðsjón af því að það væri ekki við hæfi.
Hins vegar er það þannig að í [lögum um þjóðaratkvæði] eru mjög gjarnan og yfirleitt undanskilin ákveðin atriði sem ekki er talið gerlegt að kosið sé um svo sem eins og um fjárhagsskuldbindingar, skattar og þjóðréttarlegar skuldbindingar. Það er mjög erfitt að sjá hvernig menn geta í innlendri kosningu kosið sig undan skuldbindingum sem tengjast öðrum ríkjum og þarf að semja um. Þess vegna er það yfirleitt þannig já að slíkt er undanskilið |
– Steingrímur J. Sigfússon í viðtali við netsjónvarp mbl.is í fyrradag. |
Þ jóðatkvæðagreiðsluflokkarnir, Samfylking og VG, vilja nú ekkert af þjóðaratkvæðagreiðslum vita. Á sama tíma leggja þeir fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur þótt það frumvarp sé vissulega fyrirbæri.
Steingrímur J. Sigfússon segir fullum fetum að Icesave-ánauðin henti ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sé „mjög erfitt að sjá“ hvernig menn geti kosið um „glæsilega“ samninginn sem Svavar Gestsson hafði ekki hangandi yfir sér í sumarorlofinu. Skýrari verða skilaboðin til Ólafs Ragnars Grímssonar ekki. En Steingrímur ætlar þó ekki að lýsa skoðunum á stöðu forsetans í þessum efnum „með hliðsjón af því að það væri ekki við hæfi“.
Vefþjóðviljinn hefur svo sem alltaf varað við því að þjóðaratkvæðagreiðslur geti snúist upp í skrípaleik. En að skrípóið hæfist um leið og frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur yrði lagt fram fer fram úr vonum áhorfenda.
Í þessu frumvarpi forsætisráðherra er lagt til að meirihluti Alþingis geti ákveðið að halda „ráðgefandi“ þjóðaratkvæðagreiðslu. Í frumvarpinu eru einnig nokkrar leiðbeiningar um hvernig eigi að prenta kjörseðlana. Þar megi spyrja já-eða-nei spurninga eða annarra spurninga. Auglýsa skal kosninguna í útvarpi og Lögbirtingi. Ekkert annað. Alþingi veitir sjálfu sér leyfi til að meirihluti Alþingis geti blásið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er vitað til að meirihluta Alþingis hafi verið það óheimilt áður. Nú veit meirihluti Alþingis fyrir víst að meirihluti Alþingis getur með stuðningi meirihluta Alþingi boðað til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem meirihluti Alþingis hefur samþykkt. Þetta er mikil réttarbót fyrir meirihluta Alþingis.
Í frumvarpinu er ekkert um að minnihluti á Alþingi geti óskað eftir þjóðaratkvæði og ekkert um að almennir kjósendur geti það. Frumvarpið breytir nákvæmlega engu frá því sem nú er.
Þetta er ekki alveg það sem kosningastefnuskrár þessara flokka mæltu fyrir um. Í stefnuskrám beggja flokka fyrir síðustu kosningar voru ákvæði um að tiltekinn hluti þjóðarinnar gæti farið fram á þjóðatkvæðagreiðslu:
Kosningaáherslur VG samþykktar á landsfundi í mars 2009 Aukið lýðræði – vegur til framtíðar. Lýðræðisumbætur Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál eða krafist þingrofs og nýrra kosninga. Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009 Lýðræði og jafnrétti – stjórnkerfisumbætur Þjóðaratkvæðagreiðslur. Milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins. Tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Minnihluti þingmanna, t.d. 30 % þingmanna, getur kallað eftir þjóðaratkvæði um samþykkt lög áður en forseti hefur staðfest þau. Reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur. |
En líklega er best að hafa ekki hátt um þessa stefnu um að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu þegar tiltekinn hluti þjóðarinnar er einmitt að gera það.