Þ rátt fyrir hrunið svonefnda verður rekstur ríkisins á þessu og næsta ári með nokkurn veginn sama sniði og undanfarin ár. Stofnanir, stofur, eftirlit, starfshópar, ráð og nefndir starfa að mestu leyti áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hrunið er með öðrum orðum ekki talið næg ástæða til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Stórbrotinn hallarekstur, meðal annars vegna þjóðnýtingar á skuldum einkafyrirtækja, vekur heldur ekki áhuga stjórnmálamanna á aðhaldi í rekstri ríkissjóðs.
Til að gæta fullrar sanngirni er rétt að geta þess að víkunni lagði ríkisstjórnin fram eina ágæta sparnaðartillögu. Stjórnin ætlar að lækka örlítið þær bætur sem menn fá fyrir að sinna börnum – sínum eigin börnum. Nú munu hjón mest geta fengið samtals 2,7 milljónir króna í slíkar bætur fyrir áfallið sem fylgir barneignum. Greiðslur í fæðingarorlofi verða „aðeins“ 300 þúsund krónur á mánuði í 9 mánuði. Með þessu eiga að sparast um 2.000 milljónir króna á ári sem eru miklir peningar en þó vel innan við fimmtung þess sem fæðingarorlofskerfið hefur kostað árlega undanfarin ár.
Loks sýnir stjórnin viðleitni til sparnaðar.
Mætti ætla að slík viðleitni gæti notið stuðnings stjórnmálaflokka sem starfa hægra megin við miðju, þeirra sem vilja síður hækka skattana en rifa seglin. Kemur þá ekki Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins blaðskellandi í Kastljós Ríkisútvarpsins og finnur sparnaðinum flest til foráttu. En það á kannski ekki að gera nema mátulega mikið með álit stjórnmálamanna sem sitja hjá í atkvæðagreiðslum um bæði ESB og Icesave.